Stefna VG „einkennist af fullkomnu óraunsæi“

Félagið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að …
Félagið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að flokkurinn megi aldrei innleiða lög og reglur sem tefla fullveldinu í tvísýnu. mbl.is/Kristinn

Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál fagnar því að formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, skuli hafa slitið ríkisstjórnarsamstarfinu. Félagið segir flokkinn þurfa að taka af öll tvímæli um að hann muni ekki bera fram Bókun 35 á næsta kjörtímabili. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi sjálfstæðismanna um fullveldismál. 

„Flokkur Vinstri grænna er fastur í hjólförum afturhaldssemi þegar kemur að orkumálum og afstaða þess flokks í málefnum flóttamanna og vörslu landamæra Íslands einkennist af fullkomnu óraunsæi,“ segir í tilkynningunni. 

Flokkurinn eigi ekki að leggja fram frumvarp um bókun 35

Félagið hvetur frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í komandi þingkosningum til að fylgja í hvívetna stefnu flokksins í fullveldismálum og tala fyrir henni.

„Það er engum vafa undirorpið að mikill meirihluti sjálfstæðismanna er andvígur því að reglur Evrópusambandsins (ESB) gangi framar lögum sem Alþingi á sjálft frumkvæði að því að setja. Sjálfstæðisflokkurinn verður að taka af öll tvímæli um að hann muni ekki standa fyrir því að tillaga varðandi bókun 35 verði borin fram á næsta kjörtímabili,“ segir í tilkynningunni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, var með eitt frumvarp á dagskrá á þessum þingvetri og var það frumvarp um bókun 35. 

Ítreka andstöðu við orkupakka ESB

Segir enn fremur í tilkynningunni að flokksmenn eigi að álykta á næsta landsfundi að „slíkt afsal lagasetningavalds sem tillagan felur í sér samrýmist ekki grunngildum Sjálfstæðisflokksins.“

Þá ítrekar félagið einnig andstöðu sína við innleiðingu á orkupökkum Evrópusambandsins og segir að Ísland eigi að segja sig frá samræmdu orkustefnu Evrópusambandsins.

„Fullveldi þjóðarinnar er einn af hyrningarsteinum stefnu Sjálfstæðisflokksins og flokkurinn má aldrei innleiða lög og reglur sem tefla fullveldinu í tvísýnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert