Tugir lækna til rannsóknar

Embætti landlæknis skoðar mál tuttugu lækna vegna lyfjaávísana.
Embætti landlæknis skoðar mál tuttugu lækna vegna lyfjaávísana. Samsett mynd

Embætti landlæknis hefur lyfjaávísanir u.þ.b. 20 lækna til stjórnsýslulegrar rannsóknar. Hefur þeim annaðhvort verið sent bréf frá embættinu, eða til stendur að gera það, þar sem þeim gefst kostur til andsvara.

Um er að ræða óvenjumarga lækna sem eru til rannsóknar hjá embættinu á sama tíma að sögn Jóhanns M. Lenharðssonar, sviðsstjóra á sviði eftirlits og gæða heilbrigðisþjónustu hjá landlækni. Í flestum tilfellum snúa málin að ávísun ávana- og fíknilyfja og flest koma þau upp eftir ábendingar sem leitt hafa til skoðunar á lyfjaávísun viðkomandi lækna.

„Þessi tilfelli eru þau sem eftir standa og halda áfram þegar búið er að vinna úr ábendingum. Sérfræðingar hér hjá embættinu, t.d. læknar, meta ábendingarnar og rannsaka þær,“ segir Jóhann.

Hann segir að þetta þýði ekki endilega að læknarnir megi eiga von á harkalegum úrræðum á borð við sviptingu starfsleyfis.

„Landlæknir hefur ýmis úrræði. Í fyrsta lagi að gera ekki neitt ef rannsóknin ber með sér að ekki sé tilefni til að grípa til úrræða en einnig að veita læknunum formleg tilmæli eða veita þeim áminningu ef svo ber undir. Algengara er að það sé gert frekar en að svipta fólk starfsleyfi,“ segir Jóhann.

Óvenju margir til rannsóknar 

Samkvæmt svari við fyrirspurn mbl.is Landlæknisembættisins hafa einungis þrír læknar verið sviptir starfsleyfi á árunum 2020-2024. Embættið gefur ekki upp hverjar ástæður sviptinganna voru vegna þess hve fá mál um er að ræða.

Fram hefur þó komið í fréttum að eitt þessara tilvika snúi að lækni sem ávísaði lyfjum á látna konu í um áratug. Annað snúi að lækni sem talinn var framkvæma ónauðsynlegar aðgerðir á börnum. 

Á sama tímabili eða árin 2020-2024 fengu níu læknar áminningu en 43 formleg tilmæli frá embættinu. Þar af voru 14 sem fengu tilmæli vegna lyfjaávísana.

Eins og tölurnar bera með sér er því um óvenju marga lækna að ræða sem eru til rannsóknar á sama tíma.

Tilviljun                                    

„Vissulega eru óvenju mörg mál sem komið hafa upp en það er bara tilviljun. Þetta eru mun fleiri mál en hafa alla jafna verið til rannsóknar á síðustu fjórum árum,“ segir Jóhann sem bætir því við að ekkert sérstakt átak hafi verið í málaflokknum sem skýri þetta. Málin hafa öll komið upp á síðustu misserum. 

Að sögn hans hafa ábendingar um lyfjaávísanir læknanna helst komið frá apótekum, heilbrigðisstarfsmönnum, sjúkratryggingum og Lyfjastofnun.

.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka