Varð brugðið þegar hún sá upphæðina

Snagarnir sem um ræðir.
Snagarnir sem um ræðir. Ljósmynd/Aðsend

Lilja Rut Bech Hlynsdóttir, formaður foreldrafélags Álftamýrarskóla, segir að sér hafi brugðið þegar hún komst að því að tólf milljónum króna hefði verið eytt í snaga og uppsetningu þeirra í skólanum.

Foreldrafélagið kemur saman til fundar í næstu viku og býst Lilja við að málið verði rætt á fundi félagsins. Því næst gæti félagið sent fyrirspurn um málið til borgaryfirvalda.

Kostnaður við uppsetningu snaganna hefur vakið mikla athygli eftir að mbl.is fjallaði um málið fyrr í vikunni.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, setti fjárhæðina í samhengi og sagði út­gjöld­in skjóta skökku við á sama tíma og borgin hefði skorið niður bóka­kaup skóla­bóka­safna um tíu millj­ón­ir króna.

Mynd úr safni. Þessir snagar kostuðu að líkindum minna.
Mynd úr safni. Þessir snagar kostuðu að líkindum minna. mbl.is/Hari

Hundrað prósent til ódýrari og snyrtilegri leiðir

Framkvæmdir stóðu yfir í Álftamýrarskóla síðasta vetur vegna rakaskemmda. Voru snagarnir settir upp í kjölfarið. 

Að sögn Lilju hafði skólinn beðið eftir því að fá aðstöðu fyrir börnin til að hengja upp föt og geyma skó í mjög langan tíma.

„En við vissum ekkert um þennan kostnað og erum náttúrulega gapandi hissa yfir þessu,“ segir hún.

„Við setjum stórt spurningarmerki við það að borgin skuli eyða svona miklu í snaga. Það eru hundrað prósent til ódýrari leiðir og snyrtilegri til þess að bjóða krökkunum upp á aðstöðu fyrir útifötin sín.“

Margt annað sem hefði mátt lagfæra fyrir fjármunina

Hún segir snagana líta fallega út en þeir líti þó ekki út fyrir að vera handhægir.

Þá bendir hún á að líklega hefði fjármununum verið betur varið í að laga skemmdir í öðrum grunnskólum borgarinnar.

„Það skýtur svolítið skökku við að borgin skuli eyða fjármunum í þetta, miðað við hvað það er margt annað að í skólabyggingum í Reykjavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert