„Áhættan hefur verið stórlega ofmetin“

Stefán Kristjáns­son, eigandi Einhamar Seafood og fjárbóndi í Grindavík.
Stefán Kristjáns­son, eigandi Einhamar Seafood og fjárbóndi í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grindvíkingurinn Stefán Kristjánsson, forstjóri og eigandi fiskvinnslunnar Einhamar Seafood og fjárbóndi, segir löngu orðið tímabært að opna fyrir aðgang að Grindavíkurbæ.

Frá og með mánudeginum verður aðgengi að bænum óhindrað en framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa við Grindavík tilkynnti það á upplýsingafundi á miðvikudag.

Hafa liðið fyrir lokun aðgengis að bænum

„Áhættan hefur verið stórlega ofmetin svo misserum skiptir og við höfum liðið fyrir það. En ég er glaður með þessa opnun og þetta verður góður dagur fyrir Grindavík,“ segir Stefán.

Stefán hefur þrátt fyrir mörg eldgos og endalausar jarðhræringar reynt eftir fremsta megni að dvelja í húsi sínu í Grindavík, stundað sinn atvinnurekstur og fjárbúskap. Honum hefur þó nokkrum sinnum verið gert að rýma svæðið.

Hætti við að kæra ríkið

Í febrúar stefndi hann íslenska ríkinu vegna banns yfirvalda við för hans til Grindavíkur, dvöl í eigin húsi og eigin fyrirtæki. Hann ákvað nokkrum vikum síðar að fella niður kæruna þar sem Grindvíkingum var heimilt að dvelja í bænum á ný.

„Ég hef meira og minna verið í Grindavík frá því öll þessi læti byrjuðu,“ segir Stefán. Prýðilega hafi gengið að reka fyrirtækið en sjö til átta starfsmenn hans búa í bænum.

Hann vonar að Þorbjörn og Stakkavík geti hafið atvinnurekstur á nýjan leik. Bygging Stakkavíkur sé ónýt en starfsemi Vísis í fullum gangi.

Guði sé lof fyrir þessa Grindavíkurnefnd

Spurður hvort hann eigi von á því að það færist meira líf í bæinn eftir helgina segir hann:

„Já, ég geri ráð fyrir því. Það er engin hætta og hefur aldrei verið að mínu mati. Þetta hefur allt saman verið orðum aukið hvað þetta varðar. En guði sé lof fyrir þessa Grindavíkurnefnd. Loksins fór eitthvað að gerast þegar hún tók til starfa. Það hófust strax framkvæmdir í bænum við komu hennar,“ segir Stefán.

Skrifborðs dýralæknar hjá MAST lagt okkur í einelti

Stefán vandar ekki stjórnvöldum kveðjurnar og segir að þau hafi farið offari með ákvörðun sinni um að loka aðgengi að Grindavík.

„Það var komið fram við okkur eins og ómálga börn. Við vitum alveg hvað við erum að tala um. Það þarf ekkert skrifborðslið eða almannavarnir til að segja okkur fyrir verkum. Þá hafa einhverjir skrifborðs dýralæknar hjá MAST líka lagt okkur fjárbændur í einelti. Við höfum verið með kindur í Grindavík mann fram að manni kynslóðum saman. Þeim er alveg skítsama um það og vilja að öllu fé sé lógað og banna búfjárhald í Grindavík.“

Stefán segist vera með 40 kindur í Grindavík. Hann segist hafa tekið við fjárrekstrinum af föður sínum og senn taki dóttir hans við af sér. 

„Við fluttum féð á milli bæja þegar mesti hitinn var og laumuðum því svo inn aftur. Við erum ekkert að fara með það út úr bænum aftur,“ segir Stefán.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka