Alþjóðleg keðja kaupir rekstur Wok On

Einar Örn Einarsson, annar tveggja stofnenda Serrano, er í forsvari …
Einar Örn Einarsson, annar tveggja stofnenda Serrano, er í forsvari fyrir hinn nýja veitingastað.

Rekstur þriggja veitingastaða Wokon ehf. á höfuðborgarsvæðinu hefur verið seldur til alþjóðlegu veitingakeðjunnar Wok to walk.

Að sögn Einars Huga Bjarnasonar, skiptastjóra Wok On, eru staðirnir sem um ræðir við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði, Smáratorg í Kópavogi og í mathöllinni í Borgartúni 29. Rekstur Wok On í mathöllinni á Höfða er enn í þrotabúinu og óljóst hvað verður um þá rekstrareiningu.

Í forsvari fyrir keðjuna

Wok to walk er alþjóðleg veitingakeðja sem býður asískan mat og er Einar Örn Einarsson, annar tveggja stofnenda Serrano á Íslandi, í forsvari fyrir keðjuna hér á landi.

Búist er við því að veitingastaðurinn hefji rekstur í næsta mánuði.

Einar Hugi segir kaupverð trúnaðarmál og segir að í kaupunum felist að Wok to walk eignist öll tæki og tól sem áður voru í notkun hjá Wok On. Vörumerki Wok On fylgir ekki með í kaupunum.

Einar Hugi Bjarnason er skiptastjóri Wokon.
Einar Hugi Bjarnason er skiptastjóri Wokon. Ljósmynd/Aðsend

Tæki og tól sem voru til staðar 

„Þetta voru í raun þau tæki og tól sem voru til staðar þegar lögregla kom og lokaði stöðunum,“ segir Einar Hugi.

„Wok On átti í engu tilviki húsnæðið sem reksturinn var í. Nýir eigendur gerðu leigusamninga við sömu fasteignafélög og koma inn í þessi sömu rými og Wok On rak starfsemi,“ bætir Einar Hugi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert