Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherrar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Jón Gunnarsson, hringdu í Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra í aðdraganda þess að ákveðið var að fresta brottvísun hins 12 ára Yazans Tamimis og fjölskyldu.
Þetta kemur fram í frétt í Heimildinni. Þar segir að fjölmiðillinn hafi sent fyrirspurn á embætti ríkislögreglustjóra sem staðfesti að Áslaug og Jón hefðu hringt að morgni 16. september sem var sá dagur sem til stóð að flytja Yazan og fjölskyldu hans.
Líkt og fram hefur komið hringdu þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þá félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í Sigríði Björk umræddan morgun.
Bjarni Benediktsson sagði að afskipti Guðmundar Inga hefðu verið óeðlileg.
Guðrún hefur látið hafa eftir sér að hún hafi verið mótfallin því að hætta við brottflutninginn.
Áslaug Arna er háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en Jón situr á þingi sem almennur þingmaður
Í fréttinni segir að í samtali við Jón Gunnarsson hafi ríkislögreglustjóri rætt við hann um hvort til stæði að fresta brottvísun Yazans. Eins að þau Jón og Sigríður hefðu sammælst um að ákvörðunin lægi hjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.
Ekki er greint frá því hvers eðlis samskiptin við Áslaugu Örnu voru.