Öll augu á Suðvesturkjördæmi

Hart verður barist í Sjálfstæðisflokknum um annað sætið og í …
Hart verður barist í Sjálfstæðisflokknum um annað sætið og í Samfylkingunni um það fyrsta. Samsett mynd

Allir sitjandi alþingismenn Suðvesturkjördæmis nema einn sækjast eftir því að vera ofarlega á lista fyrir komandi þingkosningar 30. nóvember. Kjördæmið er það fjölmennasta á landinu og það stefnir í mjög harða baráttu um toppsætin hjá bæði Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni.

Í Suðvesturkjördæmi eru 13 þingmenn, þar af tveir uppbótarþingmenn. Til kjördæmisins teljast Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Kópavogsbær, Seltjarnarneskaupstaður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðismaðurinn Óli Björn Kárason er sá eini sem ætlar ekki að sækjast eftir áframhaldandi þingsetu.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra verður áfram oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Enginn býður sig fram gegn honum en þrír þingmenn etja aftur á móti kappi um annað sætið, eða þau Jón Gunnarsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Vilhjálmur Bjarnason, sem býður sig fram í annað til fjórða sæti.

Vilhjálmur sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 2013 til 2017 og var varaþingmaður árið 2020.

Jón Gunnarsson og Þórdís Kolbrún.
Jón Gunnarsson og Þórdís Kolbrún. Samsett mynd/mbl.is/Óttar/Kristinn

Bryndís Haraldsdóttir og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, munum berjast um þriðja sætið á listanum, auk þess sem Sigþrúður Ármann gefur kost á sér í fjórða sætið. 

Á sunnudaginn verður fundað í Valhöll þar sem lögð verður fram tillaga um að kjósa í efstu fjögur sætin. Síðar sama dag verður kosið um þessi fjögur sæti, verði tillagan á fyrrnefnda fundinum samþykkt. Þriðjudagskvöldið 22. október mun kjörnefnd síðan leggja fram tillögu um heildarlista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Framsóknarflokkurinn

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sækist eftir fyrsta sætinu hjá Framsóknarflokknum í kjördæminu og Ágúst Bjarni Garðarsson sækist eftir öðru sætinu.

Kjördæmisþing verður haldið á laugardaginn í Bæjarlind þar sem stjórn mun leggja til uppstillingu fyrir kosningarnar. Viku síðar, eða 26. október, er stefnt á að halda aukakjördæmaþing þar sem listinn verður samþykktur.

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samfylkingin

Barist verður um efsta sæti Samfylkingarinnar, því núverandi oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi, Þórunn Sveinbjarnardóttir, etur kappi við Guðmund Árna Stefánsson, fyrrverandi ráðherra og núverandi varaformann Samfylkingarinnar.

Vinna uppstillingarnefndar Samfylkingarinnar í kjördæminu hófst í dag og lýkur henni þegar listinn verður kynntur.

Guðmundur Árni og Þórunn etja kappi.
Guðmundur Árni og Þórunn etja kappi. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg/mbl.is/Íris

Vinstri græn

Hjá Vinstri grænum býður Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður flokksins og fráfarandi ráðherra, sig fram í efsta sæti Suðvesturkjördæmis. Stefnt er á að samþykkja lista flokksins þriðjudagskvöldið 22. október á öðrum fundi kjördæmaráðs.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðreisn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður áfram oddviti Viðreisnar í kjördæminu og Sigmar Guðmundsson sækist eftir öðru sætinu. Uppstilling verður á listum flokksins fyrir kosningarnar.

Tilnefningar eiga að berast fyrir morgundaginn, svo að uppstillinganefndir geti lokið störfum í næstu viku. Þá verða listar bornir undir landshlutaráð til samþykktar og stjórn Viðreisnar til staðfestingar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðflokkurinn

Óljóst er hverjir bjóða sig fram fyrir hönd Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi. Sunnudaginn 20. október mun framboðslistinn líklega vera tilbúinn en fólk hefur allan morgundaginn til að senda inn framboð.  

Píratar

Hjá Pírötum sækist Þórhildur Sunna Ævarsdóttir áfram eftir efsta sæti listans. Þingmaðurinn Gísli Rafn Ólafsson sækist eftir fyrsta til öðru sæti og Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, sækist eftir því þriðja. Framboðsfrestur rennur út seinnipartinn á sunnudaginn.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/Eyþór

Flokkur fólksins

Guðmundur Ingi Kristinsson hefur gefið það út að hann sækist eftir oddvitasæti Flokks fólksins í Suðvesturkjördæmi. Flokkurinn fer í uppstillingu og er gert ráð fyrir því að kynna lista hans eftir helgi.

Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sósíalistar og Lýðræðisflokkurinn

Uppstilling verður hjá Sósíalistaflokknum og listar verða kynntir fyrir 30. október.

Arnar Þór Jónsson reiknar með því að bjóða sig fram í Suðvesturkjördæmi fyrir nýstofnaðan flokk sinn Lýðræðisflokkinn. Þar verður uppstilling og gerir Arnar Þór ráð fyrir því að geta tilkynnt um efstu menn á morgun, laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka