Oscar sendur úr landi – kólumbísk barnavernd tók ekki á móti honum

Hinn kólumbíski Oscar Andres Florez Bocanegra var sendur úr landi …
Hinn kólumbíski Oscar Andres Florez Bocanegra var sendur úr landi fyrr í vikunni og fer hann nú huldu höfði í Kólumbíu að sögn Sonju Magnúsdóttur. Þangað kom hann með föður sem afsalað hafði sér forræði yfir honum en engin barnaverndaryfirvöld tóku á móti honum á flugvellinum í Bógóta. Ljósmynd/Aðsend

„Hann var sendur á þriðjudaginn með einkaflugvél fyrst til Írlands og svo til Madríd þar sem hann var settur í herbergi með pabba sínum, systur og tveimur öðrum,“ segir Sonja Magnúsdóttir við mbl.is sem um margra mánaða skeið hafði hinn kólumbíska Oscar Andres Florez Bocanegra á heimili sínu uns hann var sendur úr landi nú í vikunni. Faðir hans afsalaði sér forræði hans.

Var Sonja ekki í símasambandi við Oscar eftir að lögregla sótti hann inn á salerni í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði, þar sem hann var nemandi, og vissi ekkert um afdrif hans í margar klukkustundir, en að lokum var haft samband við hana og hún beðin að pakka fötum hans niður. Hafði hann þá verið vistaður í herbergi og fékk þar að hafa síma sinn svo þau Sonja gátu verið í sambandi.

„Þau voru í herberginu í Madríd í tvo tíma áður en þau voru flutt yfir í stærri flugvél sem flutti þau til Kólumbíu,“ segir Sonja frá, en hún óttast verulega um örlög Oscars sem var henni sem sonur svo sem fram hefur komið hér á mbl.is.

Saksóknari í Kólumbíu fer fram á stöðuga vernd

„Engin barnaverndaryfirvöld tóku á móti honum þegar hann lenti í Kólumbíu og þar fer hann nú huldu höfði,“ segir Sonja og bætir því við að enginn hafi tekið á móti þeim á flugvellinum í höfuðborginni Bógóta, en faðirinn fer sem fyrr segir ekki með forræði Oscars og hefur Sonja undir höndum skjal því til staðfestingar sem hún kveður barnavernd Hafnarfjarðar einnig hafa fengið.

„Hann er að sturlast úr hræðslu um eigið öryggi og vill komast frá Kólumbíu sem fyrst,“ segir Sonja frá, en Oscar og faðir hans hafa sagt frá því að faðirinn hafi rekið veitingastað og þurft að gjalda kólumbískum undirheimabarónum svokölluð verndargjöld til að fá að stunda starfsemina óáreittur.

Er faðirinn komst í greiðsluþrot gagnvart „verndurunum“ kveðast þeir feðgar hafa sætt hótunum sem meðal annars snerust um að drengurinn yrði drepinn eða gerður að „barnahermanni“ í röðum eiturlyfjabaróna Kólumbíu. 

Hefur mbl.is fengið að sjá skjal frá embætti ríkissaksóknara í Kólumbíu, í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda, þar sem embættið mælist til þess að fjölskylda Oscars njóti stöðugrar fjarverndar þar sem þau fjölskyldan hafi verið „fórnarlömb alvarlegs og refsiverðs ráns og hafa orðið fyrir hótunum“. Ofar í skjalinu segir saksóknari:

„Til að bregðast við tilvísun þessari leyfi ég mér að fara fram á að eftirtöldum aðilum verði veitt stöðug eftirlitsvernd. Stöðuga fjarvernd skal veita neðangreindum aðilum.“

Engar takmarkanir um hvar lögregla má hafa afskipti

Marín Þórsdóttir, verkefnastjóri hjá heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra, var spurð hvort einhvers konar verklags- eða starfsreglur giltu um það hvar lögreglu væri heimilt að sækja fólk sem til stæði að vísa úr landi, en Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari Flensborgarskólans, var ákaflega ósátt við að Oscar hefði verið sóttur á salerni skólans og skrifaði Útlendingastofnun erindi vegna málsins.

„Ekki eru í lögum sérstakar takmarkanir á því hvar lögregla má hafa afskipti af einstaklingum svo sem til að birta ákvörðun eða handtaka þá til að tryggja fylgd úr landi,“ segir í skriflegu svari Marínar sem gerir frekari grein fyrir ferlinu og starfsemi heimferða- og fylgdadeildar.

„Hlutverk heimferða- og fylgdadeildar ríkislögreglustjóra er að annast og framfylgja ákvörðunum um frávísun og brottvísun sem eru teknar af til þess bærum stjórnvöldum samkvæmt útlendingalögum. Heimferða- og fylgdadeild fær beiðni frá Útlendingastofnun um að fylgja aðila úr landi samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar og eftir atvikum úrskurði kærunefndar útlendingamála,“ skrifar verkefnastjórinn.

Gæta skuli meðalhófs

Segir þar enn fremur að þegar fyrir liggi beiðni frá Útlendingastofnun sé reynt eftir megni að fá fólk til samstarfs um ferðadag og brottför af landinu. „Ef einstaklingar hafna samstarfi við lögreglu eða sýna ekki vilja til samstarfs, t.d. með því að mæta ekki í viðtöl eða gefa ekki upp dvalarstað, er metið hvort beita þurfi þvingunarúrræðum til að tryggja framkvæmd ákvörðunarinnar,“ skrifar Marín.

Telur hún upp þau þvingunarúrræði sem beita megi til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um frávísun og brottvísun frá landinu. Þau séu tilkynningaskylda, að fólk haldi sig á ákveðnu svæði, handtaka og loks gæsluvarðhald.

„Það er í verklagi lögreglu að ef talin er þörf á beitingu þvingunarúrræða skuli gæta meðalhófs og aðeins beita vægustu úrræðunum sem talin eru ná því markmiði að tryggja framkvæmd fylgdarinnar,“ skrifar hún.

Fari aðilar ekki að fyrirmælum...

Þegar lögregla þurfi að hafa afskipti af fólki, svo svo sem til að birta því ákvörðun um tilkynningaskyldu eða ákvörðun um að halda sig á ákveðnu svæði, sé það yfirleitt boðað til viðtals við fulltrúa lögreglu.

Stundum geti þó þurft að fara að uppgefnum dvalarstað eða þangað sem grunur leikur á að fólk haldi til. „Eftir atvikum eru fólki veitt fyrirmæli um að fylgja lögreglu á lögreglustöð eða á annan stað sem lögregla hefur aðstöðu, þar sem ákvörðun er birt.“

Fari aðilar ekki að fyrirmælum lögreglu eða það sé mat lögreglu að vægari úrræði nái ekki lögmætu markmiði sé gripið til handtöku og eftir atvikum farið fram á gæsluvarðhald. Þegar beita þurfi þvingunarúrræðum sem feli í sér handtöku í málum fjölskyldna þar sem börn koma við sögu sé ávallt haft samband við barnaverndaryfirvöld.

Er fylgst með afdrifum?

Leitaði mbl.is enn fremur svara við því hjá Útlendingastofnun hvort íslensk yfirvöld útlendingamála fylgdust á einhvern hátt með afdrifum fólks, einkum og sér í lagi barna, sem send væru úr landi, einkum og sér í lagi léki grunur á að viðkomandi, eða fjölskyldu hans eða hennar, hefði verið hótað í heimalandinu eða væri mögulega annar augljós háski búinn þar.

„Stutta svarið við þessari spurningu er að íslensk útlendingayfirvöld senda fólk ekki úr landi þangað sem því er „augljós háski búinn“,“ svarar Þórhildur Ósk Hagalín upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, en svar hennar er einnig skriflegt.

„Efnisleg málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd felur í sér að sérfræðingar Útlendingastofnunar meta hvort umsækjandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimalandi vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, stjórnmálaskoðana eða aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi, sem er skilyrði alþjóðlegrar verndar, eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri meðferð eða að verða fyrir alvarlegum skaða vegna vopnaðra átaka í heimalandi, sem er skilyrði viðbótarverndar,“ skrifar Þórhildur.

Varði málsástæða hótanir í heimalandi

Þurfi umsækjandi að geta sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, svo sem af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna eða almennra erfiðra aðstæðna í heimaríki eða landi sem honum yrði vísað til.

„Þá þarf einnig að leggja mat á það hvort brottvísun umsækjanda brjóti gegn grundvallarreglunni um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu,“ skrifar upplýsingafulltrúinn.

„Þegar málsástæða umsækjanda um vernd varðar hótanir í heimalandi lýtur rannsókn Útlendingastofnunar fyrst og fremst að því hvort þar til bær yfirvöld í heimalandi umsækjanda geti veitt honum vernd, svo sem lögregla, ákæruvald og dómstólar. Matið er alltaf einstaklingsbundið og byggir á efnisatriðum sem varða viðkomandi einstakling og persónubundnar aðstæður hans.“

Litið til frásagnar umsækjanda

Skrifar Þórhildur að í málum barna séu tengsl þeirra við heimaríki ávallt skoðuð. Þetta eigi ekki síst við í þeim tilvikum þegar barn sé statt á Íslandi með aðeins öðru foreldri sínu. Þá sé það skoðað hvar hitt foreldrið sé statt og hvort barnið hafi möguleika á að sameinast því. Hafi barnaverndaryfirvöld á Íslandi aðkomu að málum hafi þau einnig hlutverki að gegna í þessu sambandi.

„Við rannsókn Útlendingastofnunar er litið til frásagnar umsækjanda, gagna sem hann leggur fram og til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í upprunaríki hans, svokallaðra landaupplýsinga. Hugtakið landaupplýsingar vísar til skýrslna sem unnar eru af viðurkenndum aðilum um aðstæður í ríki umsækjanda, t.d. frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna,“ skrifar Þórhildur.

Svokallað trúverðugleikamat sé mikilvægur þáttur í málsmeðferðinni. Matið feli í sér að frásögn umsækjanda og framlögð gögn séu athuguð í ljósi annarra fyrirliggjandi upplýsinga og svokallaðra trúverðugleikamerkja í frásögn umsækjanda.

Ekki gerðar ríkar kröfur til sönnunargagna

„Með tilliti til þessa er tekin afstaða til þess hvort hægt er að telja frásögn umsækjanda trúverðuga eða ekki og hvort og að hvaða marki skuli byggt á henni við ákvörðun um umsókn um alþjóðlega vernd. Vegna aðstæðna umsækjenda um alþjóðlega vernd eru almennt ekki gerðar ríkar kröfur til frásagnar þeirra og sönnunargagna auk þess sem umsækjendur um alþjóðlega vernd njóta almennt vafans ef hann er fyrir hendi,“ skrifar Þórhildur enn fremur.

Mikilvægt sé þó að líta til þess að samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna er það sameiginleg skylda yfirvalda og umsækjanda að upplýsa mál.

„Í flestum tilvikum eru ákvarðanir Útlendingastofnunar um synjun á vernd kærðar til kærunefndar útlendingamála. Ef kært er, kemur ekki til brottvísunar fyrr en nefndin hefur gert sjálfstæða rannsókn á málinu og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun,“ segir svo áður en svarinu lýkur:

Í ljósi þess að fyrrum umsækjendur um vernd séu ekki sendir úr landi fyrr en að undangenginni þeirri rannsókn sem lýst er hér að ofan og á grundvelli þeirrar niðurstöðu að brottvísun stofni ekki lífi eða frelsi viðkomandi í hættu, sé meginreglan sú að ekki sé fylgst með afdrifum fólks í heimalandi eftir heimkomuna.

Uppfært 19. október:

Þórhildur Ósk Hagalín upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, kemur því á framfæri að samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er barnið sem fjallað er um í fréttinni ekki forsjárlaust heldur fari faðir þess og móðir með sameiginlega forsjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert