Styrkja á eftirlit tollsins

Einnig er lagt til að tekinn verði í notkun lágskammta …
Einnig er lagt til að tekinn verði í notkun lágskammta röntgenskanni við tolleftirlitið. mbl.is/Hjörtur

Veita á tollyfirvöldum heimild til að leita í innrituðum farangri farþega og áhafna þó að viðkomandi séu ekki viðstaddir leitina samkvæmt tillögu í frumvarpi fjármálaráðuneytisins, sem birt hefur verið í samráðsgátt. Ávallt ber þó að tilkynna eigendum farangursins um að leitað hafi verið í farangrinum, t.d. með því að setja kvittun í farangurinn.

Einnig er lagt til að tekinn verði í notkun lágskammta röntgenskanni við tolleftirlitið. Þeim farþegum sem teknir eru í nákvæma líkamsleit og eru látnir afklæðast verði þess í stað boðið að fara í gegnum skannann og þar með leysa sig undan tolleftirlitsskoðun á tiltölulega stuttum tíma. Þurfa þeir ekki að afklæðast við skönnunina.

Bæta eftirlitið

Tilgangurinn með því að bjóða farþegum að fara í gegnum röntgenskanna er m.a. sagður sá að bæta og straumlínulaga eftirlitið „þegar upp vaknar grunur um mögulegt innvortis smygl hjá farþega við komu til landsins eða við brottför frá landinu. Tími tolleftirlitsskoðunar mun styttast verulega, bæði farþegum og tollgæslunni til hagsbóta auk þess sem boðið er upp á möguleika sem lágmarkar óþægindi farþega sem sæta eftirliti,“ segir í skýringum.

Með fyrirhuguðum breytingum á að styrkja og bæta tolleftirlitið. Kveðið er á um að tollyfirvöld skuli fá aðgang að rafrænni vöktun og upptökum úr myndavélakerfum á svæðum þar sem viðhafa á tolleftirlit, í höfnum, á flugvöllum og á geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur.

Neita að veita aðgang

Tekið er fram að mörg dæmi séu um að sveitarfélög og einkaaðilar neiti að veita tollyfirvöldum aðgang að rafrænni vöktun á þessum svæðum.

Birtar eru tölur um fjölda þeirra sem leitað hefur verið á við komuna til Íslands á yfirstandandi ári. Þegar frumvarpið var samið höfðu 1.618.106 farþegar komið til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll. 1.625 farþegar voru valdir til frekari skoðunar og af þeim voru 1.155 skoðaðir. 172 gengust undir nákvæma skoðun og í framhaldi af því voru 55 þeirra sendir í tölvusneiðmyndatöku. Reyndust 22 þeirra vera með fíkniefni eða fíknilyf innvortis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert