Talsvert grjót hefur fallið við Uxahryggjaveg norðan við Þingvelli. Vegfarandi sem átti þar leið hjá í dag segir að aðstæður gætu verið stórhættulegar að næturlagi.
Friðrik Pálsson átti leið hjá Uxahryggjavegi í dag þegar hann varð var við tvo stóra grjótsteina sem höfðu fallið á miðjan veginn. Hann segir talsvert grjót hafa fallið en aðeins tvo stóra steina.
„Þetta er allt í lagi í björtu, þá er þetta rétt eftir hæðina, en að næturlagi er þetta mjög hættulegt.“
Friðrik hefur oft orðið var við grjót sem hefur fallið á svæðinu en ekki sé jafn stórt grjót og nú. Hann kveðst hafa látið Vegagerðina vita sem ætluðu að ganga beint í verkið.
Uppfært klukkan 18.45
Búið er að fjarlægja grjótið af veginum