Aftökunni frestað á síðustu stundu

Robert Roberson er 57 ára gamall.
Robert Roberson er 57 ára gamall. AFP

Hæstiréttur Texasríkis ákvað í fyrrinótt að fresta aftöku Roberts Robersons, sem taka átti af lífi þá um nóttina. Var ákvörðun réttarins tilkynnt einungis um hálftíma áður en gefa átti Roberson banvæna sprautu.

Málið hefur vakið nokkra athygli vestanhafs, en Roberson var á sínum tíma dæmdur til dauða vegna gruns um að hann hefði hrist Nikki, tveggja ára gamla dóttur sína, til bana árið 2002. Er hann sá fyrsti sem fær dauðadóm vegna hins svonefnda „Shaken Baby Syndrome“. Roberson segir hins vegar að hún hafi verið með lungnabólgu og dottið úr rúmi sínu sömu nótt og hún dó.

Ýmsir, þar á meðal Brian Wharton, lögreglumaðurinn sem rannsakaði málið á sínum tíma, og spennusagnahöfundurinn John Grisham, segja að gögn málsins hafi verið ófullnægjandi til sakfellingar. Benda þeir m.a. á að Nikki hafi skömmu fyrir andlátið fengið lyf, sem ekki eru lengur veitt börnum.

Þingnefnd á ríkisþingi Texas hefur stefnt Roberson til þess að gefa sér skýrslu í næstu viku og frestaði hæstirétturinn því aftökunni um stundarsakir svo hann gæti mætt fyrir þingnefndina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert