Eldur í Mávahlíð: Búið að slökkva eldinn

Mbl.is/Ólafur Árdal

Eldur kom upp í tvíbýli í Mávahlíð fyrir skömmu. 

Fyrsti bíll slökkviliðs er nýkominn á vettvang, að sögn varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Segir hann að tilkynnt hafi verið um eldtungur upp úr skorsteini. 

Sjónarvottur sem mbl.is talaði við segir að mikill reykur komi úr skorsteininum og að eldtungurnar sé mjög áberandi. 

Efri hæð hússins virðist vera full af reyk. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort einhver sé í húsinu. 

Dælubíll frá slökkviliðinu er kominn á vettvang og nú er verið að dæla vatni ofan í skorsteininn. 

Eldurinn var bundinn við skorstein.
Eldurinn var bundinn við skorstein. mbl.is/Ólafur Árdal

Uppfært klukkan 21.34 

Búið er að slökkva eldinn að sögn Steinþórs Darra Þorsteinssonar, aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.  

„Þetta var bara í skorsteini, sem betur fer,“ segir Steinþór Darri.

Segir hann að eldtungur hafi verið upp úr skorsteininum og hafi þetta litið út fyrir að vera mikið en vel gekk að ná niðurlögum eldsins.

Íbúar voru inni í húsinu þegar eldurinn kom upp en enginn þeirra var í hættu.

Óvíst er hvaða skemmdir hafa orðið vegna eldsins eða vegna slökkvistarfsins en Steinþór telur að líklega hafi þær ekki verið miklar.

Slökkviliðsmenn eru á vettvangi.
Slökkviliðsmenn eru á vettvangi. Ljósmynd/Aðsend
Slökkviliðið dælir ofan í skorsteininn.
Slökkviliðið dælir ofan í skorsteininn. Ljósmynd/Aðsend
Eldur kom upp í tvíbýli í Mávahlíð.
Eldur kom upp í tvíbýli í Mávahlíð. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert