Hættur við að sækjast eftir oddvitasætinu

Guðmundur Árni Stefánsson, varformaður Samfylkingarinnar.
Guðmundur Árni Stefánsson, varformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, ætlar ekki að sækjast eftir oddvitasæti flokksins í Suðvesturkjördæmi, né taka sæti meðal efstu manna á lista fyrir komandi Alþingiskosningar, líkt og hann hafði áður gefið út.

Guðmundur tilkynnir um ákvörðunina í færslu á Facebook-síðu sinni, en hann segist gera það af heilsufarsástæðum og samkvæmt læknisráði. Aðeins tveir dagar eru síðan hann staðfesti það í samtali við mbl.is að ætlaði að sækjast eftir eftir því að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Þá sagðist hann vera  „til í slaginn.“

Enginn slagur um oddvitasætið?

Í færslunni segir Guðmundur það liggja fyrir að hann geti ekki tekið þátt í baráttunni af þeim krafti sem hann hefði viljað.

„Af ofangreindum ástæðum er fyrirliggjandi, að ég hefði ekki átt þess kost að taka þátt í komandi kosningabaráttu og þeim viðamiklu verkefnum sem framundan eru, af þeim krafti sem ég er vanur og vilji minn stóð til. Þess vegna stíg ég til hliðar að þessu sinni.“

Þórunn Sveinbjarnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, hefur staðfest að hún ætli að sækjast eftir forystusætinu og því stefndi í slag um oddvitasætið. Eins og staðan er núna sækist Þórunn ein eftir því sæti.

Fagnar innkomu Ölmu Möller

Guðmundur fagnar innkomu Ölmu Möller landlæknis á listann og segist styðja hana til forystusætis, en hún hefur tilkynnt að hún sækist eftir 2. sæti. Þá vekur hann einnig athygli á Guðmundi Ara Sigurjónssyni og Hildi Rós Guðbjargardóttur sem ungu forystufólki.

„Jafnaðarmenn eru í  góðum sóknarfærum undir ötulli forystu Kristrúnar Frostadóttur og ég mun styðja baráttu flokksfélaga minna eftir því sem mér er unnt. Einnig mun ég sinna áfram skyldum mínum sem bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og varaformaður flokksins eins og kostur er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert