„Ísland á ekki heima innan Evrópusambandsins“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, áréttar að hún sé andvíg inngöngu í Evrópusambandið. 

Þetta segir Áslaug eftir samtal í hlaðvarpinu Bakherbergið, sem þeir Andrés Jónsson og Þórhallur Gunnarsson stýra. Þar sagðist hún ekki útiloka að atkvæðagreiðsla um ESB gæti komið til umræðu í stjórnarmyndunarviðræðum. Eins áréttar hún að hún sjái ekki fyrir sér að hún tæki þátt í ríkisstjórn sem myndi vinna að inngöngu í Evrópusambandið. 

Ekki rétt að ýta undir atkvæðagreiðslu 

„Ég vildi árétta þarna að það er ekkert sem heitir að þjóðaratkvæðagreiðsla eftir viðræður við ESB eins og margir flokkar hafa talað fyrir. Eina samtalið sem þyrfti að taka væri um atkvæðagreiðslu áður en viðræður við ESB hæfust. En ég tel almennt ekki rétt að fólk ýti undir atkvæðagreiðslu um hluti á borð við ESB ef við ætlum ekki að ganga í sambandið,“ segir Áslaug Arna.  

„Ég hef alla tíð verið andvíg aðild að Evrópusambandinu og sú trú hefur einungist aukist þegar ég hef verið að starfa í málefnasviðum í mínu ráðuneyti. Sérstaklega þegar kemur að hlutum eins og samkeppnishæfni þjóða. Ekki síst á þetta við þegar kemur að málefnum gervigreindar. Þó Evrópusambandið sé að einhverju leyti að vakna gagnvart samkeppnishæfni svæðisins þá breytir það því ekki að það er mín skoðun er sú að Ísland á ekki heima innan Evrópusambandsins og hagmunum okkar er ver komið þar,“  segir Áslaug Arna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert