Snorri Másson vill leiða Miðflokkinn í Reykjavík

Ljósmynd/Samtök iðnaðarins

Snorri Másson, ritstjóri miðilsins Ritstjóri.is, hefur ákveðið að sækjast eftir því að leiða Miðflokkinn í Reykjavík í komandi Alþingskosningum. Þetta tilkynnir hann á miðli sínum.

Segist hann hafa lýst þeim vilja sínum fyrir viðeigandi yfirvöldum innan flokksins og hann vonist við að þau komist að niðurstöðu von bráðar. 

„Að mínu mati er Miðflokkurinn það stjórnmálaafl sem er langlíklegast til þess að standa vörð um heilbrigða skynsemi í íslenskum stjórnmálum. Það hefur sýnt sig á síðustu árum í meiri háttar hagsmunamálum fyrir Íslendinga og ég er þess fullviss að svo verði áfram og jafnvel mun meira á komandi tímum,“ segir Snorri í tilkynningu sinni.

Segist hann sjá Miðflokkinn sem skynsemisflokk sem sé þó einnig rómantískur í eðli sínu.

„Og rómantík er snar þáttur í þeirri sjálfstæðisbaráttu sem er fram undan og ég þreytist ekki á að nefna. Af þeim sökum tilkynni ég hér með að ég sækist eftir oddvitasæti á lista Miðflokksins í Reykjavík í komandi alþingiskosningum.“

Var upphaflega vinstrimaður

Tilkynnir hann um áform sín í löngu máli á miðli sínum, bæði rituðu og á myndbandsupptöku og útskýrir hvers vegna hann velji Miðflokkinn.

Þar segist hann upphaflega hafa verið vinstrimaður í flestum málum, eins og ungu fólki sæmi. Svo hafi það gerst með aldri og reynslu að hann hafi færst aðeins til hægri í ákveðnum málum.

Hann veltir þó upp spurningunni hver hafi færst hvert, því mál sem áður hafi verið merkt vinstri, eins og þjóðrækni og varðstaða um tjáningarfrelsi, séu nú komin til hægri í hugum margra, jafnvel öfgahægri.

„Stóru spurningunni er hins vegar ósvarað: Í öllum þessum tilfæringum og sveiflum hingað og þangað, til hægri og til vinstri, hvar sitjum við eftir, sem höldum í þau grunngildi sem ég hef verið að tíunda hérna í stuttu máli? Á svona örlagatímum, væri ekki tilefni fyrir alla sem trúa á framtíð landsins og vilja berjast fyrir henni, að mætast á miðri leið í Miðflokknum,“ segir Snorri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert