Stór hópur að „drepast“ úr spenningi

Snorri segist vera orðinn þreyttur á að blaðra og vill …
Snorri segist vera orðinn þreyttur á að blaðra og vill láta verkin tala. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson/SFS

Snorri Másson, fjölmiðlamaður og ritstjóri miðilsins Ritstjóri.is, sem sækist eftir oddvitasæti hjá Miðflokknum í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar, segir að þreifingar á milli hans og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins, hafi orðið til þess að hann sóttist eftir því að leiða listann. Hvort frumkvæðið hafi komið frá honum sjálfum eða Sigmundi segir hann erfitt að segja til um.

„Ég á erfitt með að festa fingur á í hvaða röð hlutirnir gerast. Ég hef þekkt Sigmund Davíð lengi, við spjöllum saman, og í slíkum umræðum er ýmsu fleygt fram. Sumt er raunhæft um eitthvert skeið, annað verður skyndilega augljósara skref. Það er ekki alveg hægt að lýsa því í rannsóknarskýrslustíl hver atburðarásin er,“ segir Snorri í samtali við mbl.is, en hann greindi frá ákvörðun sinni í morgun.

„Maður fer ekki af stað í svona verkefni án þess að vera búinn að kanna jarðveginn og auk þess er það ekkert leyndarmál að þegar kosningar bera brátt að þá eru allir stjórnmálaflokkar að ræða við allskonar fólk.“

Fleiri flokkar höfðu samband

Snorri segist ekki bara vera að leita sér að þægilegri innivinnu og föstum tekjum næstu fjögur árin. Hann hafi lifað góðu lífi af tekjunum af Ritstjóra.is. Hann hafi áður tekið galnar ákvarðanir en er kominn með nóg af blaðri og vill láta verkin tala.

„Það hefur ekki verið leyndarmál fyrir neinn sem horfir á efni mitt á miðlunum að ég er pólitískur maður, þá er það bara þannig að stjórnmálaflokkar annað hvort sjá eitthvað í því eða ekki. Og ég sé annað hvort eitthvað í þeim eða ekki.“

Þannig það höfðu fleiri flokkar samband við þig?

„Það er alltaf samtal í gangi á milli stjórnmálaflokka og frambjóðenda í þingkosningum. Ég meina, ég væri að ljúga ef ég segði nei við því. En það er ekkert alltaf alvara í slíkum þreifingum. Fólk er bara að spyrja hvað er að frétta og svo færist annað hvort hiti í leikinn eða ekki. Það er bara eins og gengur.“

Er vongóður um að fá oddvitasæti

Snorri sagði í tilkynningu sinni í morgun að hann hefði lýst vilja sínum um að leiða lista Miðflokksins fyrir viðeigandi yfirvöldum innan flokksins og að hann vonaðist eftir niðurstöðu sem fyrst. Aðspurður hvort hann telji að honum verði boðið oddvitasæti, segist hann vongóður um það.

„Ég er vongóður um að það komi farsæl niðurstaða úr þessu. Eins og mér skilst þá væri það í næstu viku sem kjördæmafélag getur komist að niðurstöðu um þetta. Ég er svolítið að koma utanfrá inn í þetta. Ég er ekki innmúraður þarna þó ég hrífist af þessari hreyfingu. Þetta eru bara mín skilaboð, mín tillaga, svo verða menn bara að taka afstöðu til þess.“

„Það er þarna sem trúverðugleikinn er“

Snorri bindur vonir við að ef hann fái að leiða listann verði gífurlega mikið af fólki sem muni fylkja sér að baki Miðflokknum í komandi kosningum. Þó ekki bara vegna hans, heldur vegna margra samverkandi þátta. Miðflokkurinn sé eini flokkurinn sem hafi einhvern trúverðugleika.

„Ég tel að þetta sé sú stjórnmálahreyfing, og þeir einstaklingar sem eru þarna fyrir, sem eru þessi tveggja manna þingflokkur, að þeir hafi sannarlega sýnt það á þessu og síðasta kjörtímabili að ef það er einhver valkostur í íslenskum stjórnmálum gagnvart þessu sem er í gangi, þá eru það þeir. Það er þarna sem trúverðugleikinn er, um að gera raunverulegar breytingar til hins betra í stjórnmálum.“

„Núna vil ég láta verkin tala“

Hefur mikill meðbyr með Miðflokknum upp á síðkastið einhver áhrif á að þú valdir þann flokk?

„Undanfarin ár hafa einfaldlega verið áhugavert pólitískt ferðalag fyrir mjög marga einstaklinga. Ég er ekkert hefðbundinn hægri- eða vinstrimaður þannig ég geti skilgreint mig þægilega gagnvart þeim stjórnmálaási. Ef maður myndi horfa á þróun Miðflokksins þá er hann í upphafi kannski að koma úr annarri átt en ég pólitískt, en það hafa hins vegar orðið breytingar í stjórnmálum og allskonar þróun í ýmsum málum hægt og rólega á undanförnum árum sem leiðir menn á sama stað,“ segir Snorri. Fólk úr ólíkum áttum sé að koma saman á nýjum stað.

Miðflokkurinn mældist með rúm 15 prósent fylgi í nýrri könnun Prósents sem unnin var fyrir Morgunblaðið, en greint var frá niðurstöðunum í gær. Í sömu könnun mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 15,6 prósent fylgi en munurinn á þessum tveimur flokkum er innan skekkjumarka. Samfylkingin mældist með 24,8 prósent.

„Ég veit um gífurlega umfangsmikinn hóp, hann er að drepast hann er svo spenntur að sjá ferskan andblæ inn í stjórnmálin. Hitt er staðnað og er ekki að þjóna kjósendum og ekki að þjóna breyttum hugmyndum kjósenda,“ segir Snorri.

Sjálfur segist hann hafa það sterka sýn að honum hafi þótt nóg komið af því að blaðra. „Mér finnst ekki fullnægjandi lengur að láta orðin tóm duga, núna vil ég láta verkin tala. Ég veit ekkert hversu auðvelt það er eða hvað er hægt að gera þarna, en ég trúi að ég muni gera allt sem ég get til að raunverulega stuðla að breytingum.“

Ekki lengur áskriftarvefur

Líkt og fram hefur komið er Snorri ritstjóri miðilsins Ritstjóri.is sem hefur verið áskriftarvefur, en nú verður breyting á því.

„Ég geri augljóslega breytingar á fyrirkomulaginu, ég ætla ekki að auglýsa lengur eða loka neinu efni eða taka gjald af áskriftum eins og ég hef gert.“ Hann hyggst þó halda síðunni, enda sé það hans vettvangur.

Hann segir verkefnið Ritstjóra.is hafa gengið vonum framar og að hann hafi getað lifað mjög góðu lífi með stuðningi áskrifenda og auglýsenda. 

Ekki klassískur kostur fyrir 101 rottu

Ertu ekki bara að tryggja þér gott starf og góð laun næstu fjögur árin með þessu?

„Ég gæti mjög auðveldlega hugsað mér að halda áfram að vinna við það sem ég vinn. Ég gæti fengið mjög góða vinnu við það. Ég hef tekið galnar ákvarðarnir áður. Ég hætti í mjög góðri vinnu hjá Stöð 2 á sínum tíma. Það er ekkert augljóst í mínu fari að ég sé hrifinn af starfsöryggi og þægilegri innivinnu,“ segir Snorri.

„En auðvitað er þessi spurning viðloðandi þegar lukkuriddararnir fara á kreik og auðvitað munu einhverjir telja mig fylla þann flokk, en ég myndi frekar segja að ég vil leggja mín verk í dóm kjósenda þegar ég er komin þarna inn. Þá getur fólk dregið ályktun um hvort ég er þarna til að halla mér aftur og setja fætur upp á borð eða til að raunverulega bjarga landinu.“

Snorri segir að ákvörðun sín hafi vissulega komið mörgum á óvart, en fyrir honum sé hún augljós.

„Í mínu umhverfi, ég er bara 101 rotta, þá er Miðflokkurinn ekki þessi klassíski kostur, en það sem ég vísa til eru þessar stóru breytingar í stjórnmálunum og þetta finnst mér vera lending. Þó hún komi mönnum spánskt fyrir sjónir framan af og til að byrja með, þá held ég að þegar fram líði stundir þá verði þetta gjörsamlega augljós ákvörðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert