Stefán E. Stefánsson
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir hefur beðið Jón Gunnarsson, flokksfélaga sinn, afsökunar í kjölfar þess að hún tilkynnti um framboð sitt í 2. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi án þess að gera Jóni viðvart um það sérstaklega.
Upplýst hefur verið að Þórdís Kolbrún gerði Jóni ekki viðvart um framboð sitt áður en tilkynnt var um það í fjölmiðlum. Heimildir Morgunblaðsins herma að það hafi valdið nokkrum titringi í kjördæminu. Jón var þá þegar búinn að lýsa því yfir að hann hygðist sækjast aftur eftir öðru sætinu en hann hefur vermt það frá því í prófkjöri sem efnt var til í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.
Þórdís er spurð út í þetta mál í Spursmálum og hún er afdráttarlaus í svörum.
„Auðvitað hefði ég átt að láta hann formlega vita og ræða það og fara yfir það af hverju ég væri að gera þetta. Það hef ég sagt við Jón og ég hef beðið hann afsökunar á því að hafa ekki gert það með formlegum hætti. Við Jón höfum auðvitað starfað saman í mörg ár og farið saman í gegnum alls konar baráttur og slagi, innanflokks og við andstæðinga. Jón er vinur minn, hann er með sterka stöðu í Suðvesturkjördæmi, hann er búinn að vera mjög lengi og í alls konar hlutverkum, neðarlega á lista, ofarlega á lista eins og ég í Suðvesturkjördæmi,“ segir Þórdís.
Og Jón er afdráttarlaus einnig. „Það er búið að sjatla þetta á milli okkar.“
Viðtalið við Jón og Þórdísi Kolbrúnu má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: