Ekkert kemur í staðinn fyrir vinnuna

Ásdís Björg Pétursdóttir hefur selt ferðir í tæp 43 ár.
Ásdís Björg Pétursdóttir hefur selt ferðir í tæp 43 ár. mbl.is/Karítas

Ásdís Björg Pétursdóttir hætti að vinna þegar hún varð sjötug í maí 2019, var kvödd með virktum eftir liðlega 37 ára starf og fór í þriggja vikna ferðalag. Nokkrum dögum eftir heimkomuna var hún beðin að koma aftur. „Ég fékk hringingu og spurningin var: Ásdís mín, heldurðu að þú getir komið og hjálpað okkur?“ Nú, rúmlega fimm árum síðar, er hún enn á fullu í vinnunni, þótt lausráðin sé. „Það er eins og ég hafi aldrei hætt.“

Ferðaskrifstofan Úrval var stofnuð 1970 og Ásdís hóf störf hjá fyrirtækinu í Pósthússtræti 9 í Reykjavík í febrúar 1982. Síðar sameinuðust Úrval og Útsýn, starfsemin hefur færst til og á dögunum voru flutningar úr Hlíðasmára 19 í Hlíðasmára 6 í Kópavogi. „Ég er svo heppin að Þórunn Reynisdóttir forstjóri vill hafa dreifðan aldurshóp í starfsliðinu og við erum fjórar konur sem erum eldri en 67 ára. „Ásdís mín, við gerðum ráð fyrir borði fyrir þig á nýja staðnum,“ sagði Þórunn við mig og það segir allt um starfsandann. Ég vinn með frábæru, góðu og skemmtilegu fólki.“

Tilviljun réð því að Ásdís, sem vann í bókhaldi og sá reyndar um bókhald fyrirtækis fjölskyldunnar þar til það var selt fyrir skömmu, hóf störf í ferðabransanum. „Vinkona mín benti mér á að það vantaði fólk og ég sló til.“

Ásdís á Halong-flóa í ferð um Víetnam og Hong Kong.
Ásdís á Halong-flóa í ferð um Víetnam og Hong Kong. Ljósmynd/Aðsend

Líf og reynsla

Samfara aukinni tækni er nándin við viðskiptavini minni en áður. Þegar Ásdís byrjaði mætti fólk á ferðaskrifstofur og keypti ferðir en nú fara samskiptin að mestu leyti í gegnum tölvu og síma, þótt margir kjósi að ganga frá málum beint við starfsmann frekar en í gegnum tölvu. „Eldra fólkið kemur meira á skrifstofuna og reynslan kemur sér mjög vel,“ segir hún. Hún hafi ferðast mikið og komið víða og geti því leiðbeint fólki um val á gistingu og fleira. „Það var sérstaklega gaman í gamla daga þegar sumar- og vetrarbæklingarnir komu út hjá ferðaskrifstofunum. Þá var opið um helgar og fólk kom uppstrílað til okkar hvaðanæva af landinu til að fá bækling, spá og spekúlera. Þá var líf í miðbænum.“

Ásdís segir erfitt að gera upp á milli áfangastaða og hún eigi sér ekki neinn uppáhaldsstað. „Siglingar hafa reyndar verið í miklu uppáhaldi og ég hef farið í tíu ferðir með skemmtiferðaskipum.“

Starfið hefur alla tíð verið mjög lifandi og skemmtilegt, að sögn Ásdísar. „Þegar ég hætti að vinna fann ég að ég hafði í raun ekkert að gera og var fegin þegar mér bauðst að koma aftur.“ Barnabörnin hafi verið orðin fullorðin og þó að hún hafi hitt vini og farið í gönguferðir hafi ekkert komið í staðinn fyrir vinnuna. „Ég er samt ekki í föstu starfi heldur leysi af þegar á þarf að halda, auk þess sem ég er kölluð inn á álagstímum. Mér finnst æðislegt að fá að vinna hérna á meðan þörf er fyrir mig og hausinn á mér er í lagi. Það gefur lífinu lit að hitta samstarfsfólkið og viðskiptavinina reglulega.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert