Engin neyðarvistun á Stuðlum eftir brunann

Unnið er að því að setja upp bráðabirgðaaðstöðu fyrir neyðarvistun …
Unnið er að því að setja upp bráðabirgðaaðstöðu fyrir neyðarvistun á Stuðlum. Samsett mynd/Ólafur Árdal

Engin neyðarvistun er á Stuðlum eftir brunann í gær og óvíst er hvenær hægt verður að hefja neyðarvistun á ný. Unnið er að því að útbúa bráðabirgðaaðstöðu fyrir þá starfsemi.

Eldurinn kom upp í herbergi vistmanns í neyðarvistun og er sú álma á gjörónýt. Viðgerðir á þeim hluta húsnæðisins munu taka marga mánuði.

17 ára barn lést í brunanum og starfsmaður slasaðist. Hann hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi og er líðan hans eftir atvikum. 

Öll starfsemi Stuðla hefur verið færð tímabundið í húsnæði Vogs, en þar er einungis aðstaða fyrir meðferðardeildina, ekki neyðarvistun. 

Hægt að senda einhver börn heim

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, segir að vel hafi gengið að færa starfsemina yfir á Vog í gær.

„Það gekk gríðarlega vel. Vogur tók ofsalega vel á móti okkur og tæmdi þetta rými sem við erum með álmuna í. Við erum með sérálmu, alveg sérhæð þar sem við erum með sérinngang. Þannig þetta er alveg aðskilið. Þau hlupu til að færa til fólk og það gekk mjög vel,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is.

„En staðan er sú að eins og stendur erum við ekki með neyðarvistun. Sum börn fóru heim, sem gátu farið heim, en þau börn sem ekki gátu farið heim, þau fóru upp á þessa deild,“ segir Ólöf. En nú er verið að setja upp nýjar hurðir og veggi til að útbúa bráðabirgðaúrræði á Stuðlum.

„Það er allt kapp lagt á það núna að reyna að stúka af inni á meðferðardeildinni sem er alveg í lagi. Við höfum verið með dælur og lofthreinsivélar í öllu húsinu þannig við erum að reyna að loka af allt rými sem kemur lykt úr.“

Viðgerðir taka marga mánuði

Ólöf segir aðstöðuna á Vogi henta ágætlega til bráðabirgða, fyrir aðra starfsemi en neyðarvistun.

„Herbergin eru mjög fín og það eru allir með einstaklingsherbergi. Þetta var ungmennadeildin í gamla daga, það er viðverurými, en ekki eins og við erum með á meðferðardeildinni hjá okkur. Við erum með líkamsræktarsal, tómstundaherbergi og fleira hjá okkur. En þetta er til bráðabirgða mjög gott,“ segir hún.

„En við leggjumst öll á árarnar að reyna að koma Stuðlum í gott stand, allavega meðferðardeildinni til að taka við þessum börnum aftur.“

Aðspurð hvað viðgerðir muni taka langan tíma segir það verða marga mánuði.

„Neyðarvistunina sjálfa, það mun taka marga mánuði. Það svæði er ónýtt og ekki hægt annað en að hreinsa allt saman út þar.“

Er það ekki mjög bagalegt?

„Jú það er það og þá þarf að grípa til einhverra bráðabirgðalausna sem við erum að reyna að útfæra í þessum töluðu orðum. Við verðum að bregðast við slíku,“ segir Ólöf en hún vonast til að það verði aðeins dagaspursmál hvenær hægt verði að taka bráðabirgðarými í notkun.

Álma þar sem neyðarvistun hefur verið á Stuðlum er gjörónýt.
Álma þar sem neyðarvistun hefur verið á Stuðlum er gjörónýt. mbl.is/Ólafur Árdal

Starfsfólk fékk áfallahjálp

Starfsfólk fékk áfallahjálp eftir brunann í gær og sálfræðingar á Stuðlum hafa hlúð að börnunum. 

„Þetta er gríðarlegt áfall, svo vægt sé til orða tekið. Starfsmenn fengu strax boð um áfallahjálp í gærmorgun. Svo er verið að hlúa að starfsfólki núna. Við ætlum að hittast í kvöld svo allir geti talað saman.“

Ólöf segir starfsfólkið á Stuðlum vant að takast á við mikið mótlæti þó ekkert í líkingu við brunann í gær hafi áður komið upp.

Áfallið kemur oft síðar hjá börnum

Þá segir hún allt gert til að reyna að mæta börnunum, því áfallið hafi ekki verið minna fyrir þau.

„Þetta eru börn í gríðarlega viðkvæmri stöðu og við reynum að gera eins vel og við getum til að bregðast við þeirra vanda og hlúa að þeim eins og hægt er. Þau fengu sálfræðing til sín strax eftir atvikið. Við erum erum með nokkra starfandi sálfræðinga sem eru að vinna með þeim. Þetta er áfall fyrir marga og ekki síður skjólstæðinga.“

Hún bendir á að áfallið komið oft síðar hjá börnum en fullorðnum, enda taki þau lengri tíma að átta sig á alvarleika málsins. „Þetta er aðeins öðruvísi en hjá fullorðnum en við fylgjumst vel með því.“

Bruninn er nú kominn inn á borð til miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en tæknideild lögreglunnar hóf störf á vettvangi strax í gær. Enn er óljóst hver eldsupptök voru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert