Nýr græningjaflokkur hyggst bjóða fram í öllum kjördæmum

Kikka segir þörf á alvöru græningjaflokki á Alþingi.
Kikka segir þörf á alvöru græningjaflokki á Alþingi.

Græningjar stjórnmálasamtök stefna að því að bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi alþingiskosningum þann 30. nóvember. Stofnfundur samtakanna fer fram á Valkyrjunni í Skipholti í dag, en stofnendur eru nú í óða önn að safna nægum fjölda meðmælenda til að fá bæði nafn og listabókstaf.

Í framhaldinu verður farið í að finna fólk á lista í öllum kjördæmum og listarnir verða vonandi kunngjörðir fljótlega í byrjun vikunnar.

Kikka Sigurðardóttir, ein stofnenda stjórnmálasamtakanna, segir bæði pláss og þörf fyrir fleiri flokka þingi, enda hafi náttúrunni og loftslagsvánni ekki verið sinnt af hálfu starfandi flokka. Þá vilji þau spillinguna og frændhyglina burt, sem hafi viðgengist í íslenskum stjórnmálum.

Finnst mikilvægt að vera með núna

Kikka segir að þau hafi vissulega gert ráð fyrir að hafa meiri tíma til að móta stefnu samtakanna, enda stóð til að kosningar færu fram næsta haust.

„Það er auðvitað enginn tími til stefnu. Við ætluðum að nota veturinn í stofnunina, málefnavinnu og allt það. En okkur finnst mjög mikilvægt að við séum með í þessum kosningum, af því að þó við kæmumst ekki inn þá erum við með áherslur sem þarf að tala um og við munum þá setja þá umræðu í gang. Vonandi verður þetta líka til þess að hinir flokkarnir verði með metnaðarfyllri umhverfis- og loftslagsáætlanir sem þau eru til í að standa við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert