Sverrir Bergmann, tónlistarmaður og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, hyggst gefa kost á sér í þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.
Sverrir staðfestir þetta í samtali við mbl.is en hann telur mikilvægt að fá fleira sveitarstjórnarfólk yfir í landsmálin. „Fá betri tengingu þar á milli,“ segir Sverrir, en hann brennur helst fyrir mennta- og menningarmálum.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, mun leiða lista Samfylkingarinnar í kjördæminu en hann greindi frá því í samtali við mbl.is að hann hefði ekki verið lengi að hugsa sig um þegar honum var boðið oddvitasætið.
Oddný G. Harðardóttir, eini þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu, hyggst ekki sækjast eftir sæti á lista.