Ásmundur þegar farinn að skoða atvinnuauglýsingar

Ásmundur Friðriksson, laut í lægra haldi í baráttu um þriðja …
Ásmundur Friðriksson, laut í lægra haldi í baráttu um þriðja sæti í Kraganum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Friðriksson, þingmaður í Sjálfstæðisflokki til ellefu ára, fékk ekki brautargengi trúnaðarmanna í Suðurkjördæmi en hann sóttist eftir þriðja sæti á lista flokksins. 

„Maður er að sleikja sárin. En svo vaknar maður við nýjan dag á morgun,“ segir Ásmundur. 

Hann telur það óheppilega þróun fyrir Suðurnesin að þingmenn svæðisins fari úr tveimur í einn í kjördæminu. Hann segir þó starfsorkuna næga og að hann sé þegar farinn að skoða atvinnuauglýsingar í Morgunblaðinu. Hann svarar engu um það hvort hann gæti hugsað sér að fara fram fyrir Miðflokkinn ef sá möguleiki kemur upp. 

Tveir frá Suðurnesjum um sama sæti 

„Fyrir alla keppnismenn er svona niðurstaða vonbrigði. Það voru tveir frambjóðendur á Suðurnesjum að sækjast eftir sama sæti og það var búið að vara við því að með því að dreifa atkvæðum svona, myndu Suðurnesjamenn missa þingmann,“ segir Ásmundur en Suðurnesjamaðurinn Birgir Þórarinsson sóttist einnig eftir þriðja sætinu. 

Fyrir valinu varð Ingveldur Anna Sigurðardóttir, lögfræðingur og varaþingmaður, en hún fékk tíu atkvæðum meira en Ásmundur.

Hann segist alla tíð hafa verið í miklu sambandi við kjósendur og er sannfærður um að hann hefði unnið hefðbundið prófkjör.

Er rétt að byrja og á nóg eftir  

Spurður um framhaldið þá segist Ásmundur hafa fulla starfsorku en hann er 68 ára gamall. „Ég er ekki búinn að fá nóg af því að vinna. Það vantar mikið upp á það. Ég er búinn að lesa atvinnuauglýsingar Morgunblaðsins í dag. Ég er bara rétt byrjaður og á nóg eftir,“ segir Ásmundur.

„Ég tilkynnti konunni það strax að ég sé ekki hættur að vinna,“ bætir Ásmundur við. 

Kæmi til greina að skipta um flokk og fara fram fyrir Miðflokkinn? 

„Við því segi ég bara. Maður á ekkert í pólitík og það á mann enginn í pólitík,“ segir Ásmundur. 

Stoltur af árangrinum 

Hann segist þó stoltur af þeim árangri sem náðst hefur á þeim ellefu árum sem hann hefur verið á þingi.

„Sjálfstæðisflokkurinn er að skila góðu búi þó að vextirnir séu að plaga okkur. En ég er bara stoltur af því að hafa tekið þátt í mörgum framfaramálum fyrir land og þjóð fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og í þeim ríkisstjórnum sem ég hef verið í. Við höfum breytt kjörum eldri borgara og öryrkja t.a.m. þó að alltaf sé kallað eftir meira í þeim efnum. En það hefur margt áunnist og við getum verið mjög stolt af því sem við höfum gert þegar horft er á stóru myndina,“ segir Ásmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka