Þýðir að Miðflokkurinn fari lengra til hægri

Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Sigríður Á. Andersen.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Sigríður Á. Andersen. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Arnþór

„Þetta eru alveg stórtíðindi í pólitíkinni, og á hægri vængnum. Það er ekkert hægt að segja annað,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, á Sprengisandi um að Sigríður Á. Andersen hafi snúið baki við Sjálfstæðisflokknum og gengið til liðs við Miðflokkinn. 

Lilja sagði ekki hægt að líta á málið öðruvísi en að Sigríður væri að flýja Sjálfstæðisflokkinn. 

„Ég sá fyrirsögn um að hún væri ekki að flýja Sjálfstæðisflokkinn. Það er alveg ómögulegt að lesa það í þetta, svo ég sé bara alveg hreinskilin. Svo ég fái að setja mig aðeins í greiningarstöðuna,“ sagði hún. 

Lilja sagðist telja að þetta þýddi að Miðflokkurinn fari lengra til hægri, „sem ég lít á sem gott fyrir okkur, af því þá getum við verið meira á miðjunni vegna þess að mikið af okkar fylgi hefur verið að fara á Miðflokkinn.“

„Þannig að innkoma Sigríðar, hún er góð fyrir okkur, en hún er mjög slæm fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“

Lilja sagðist halda að framundan væri uppgjör hjá Sjálfstæðisflokknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert