„Ekkert mér vitanlega hafði verið í ólagi“

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri barna- og fjölskyldustofu, segir ekkert hafa …
Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri barna- og fjölskyldustofu, segir ekkert hafa verið í ólagi á Stuðlum þegar bruninn varð. Samsett mynd/Ólafur Árdal

Bráðabirgðaúrræði fyrir neyðarvistun barna, sem unnið er að því að útbúa á meðferðarheimilinu Stuðlum, verður ekki sambærilegt því sem var þar fyrir, enda var um sérhannað húsnæði að ræða. Þar verða börn engu að síður neyðarvistuð, eftir að rýmið er tilbúið.

Eldur kom upp í herbergi vistmanns í neyðarvistun á laugardagsmorgun og er sú álma gjörónýt. 17 ára piltur lést í brunanum, en starfsmaður sem slasaðist er útskrifaður af sjúkrahúsi.

Svæði stúkað af inni á meðferðardeild

Iðnaðarmenn eru nú að störfum á Stuðlum við að útbúa umrætt bráðabirgðaúrræði, en Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri barna- og fjölskyldustofu, bindur vonir við að rýmið verði tilbúið í vikunni. Engin neyðarvistun verður í boði fyrir börn þangað til. 

„Það er verið að kippa því í liðinn í þessum töluðu orðum. Ég á von á því að það gerist í vikunni, ásamt bráðabirgðalausn sem við erum að landa, ásamt því að stúka af inni á meðferðardeild Stuðla. Það verður ekkert á sama formi og við höfum haft. Þetta er auðvitað sérhannað húsnæði.“

Lágmarksmönnun á næturvakt

Tíu börn voru á Stuðlum þegar eldurinn kom upp, þar af sex í neyðarvistun. Neyðarvistunin er þrískipt og voru börnin þar á tveimur svæðum. Fjórir starfsmenn voru á vakt sem Ólöf segir lágmarksmönnun á næturvöktum.

Þegar börn komi í neyðarvistun hafi þau hins vegar oft smá tíma til að fjölga starfsfólki ef þörf krefur. „Oft vitum við hvað stefnir í og þá er mönnunin aukin. En þetta var bara hefðbundin mönnun þegar atvikið átti sér stað.“

Stóð til að öll börnin færu á Vog

Starfsemin á Stuðlum var tímabundið flutt á Vog um helgina, þar sem vistmenn dveljast nú. Líka þau börn sem voru í neyðarvistun. Ólöf segir það hafa staðið til að öll þau börn sem voru á Stuðlum færu á Vog, þó sum hafi verið keyrð heim. Það hafi aðeins verið til bráðabirgða á meðan verið var að gera húsnæðið á Vogi tilbúið. Starfsmenn mátu hvaða börn þeir töldu geta farið heim og var ákvörðun um það tekin í samráði við barnavernd.

„Öll þau börn sem við vorum með ábyrgð áttu að fara inn á Vog um leið og hægt var. Við vorum með hús sem ekki var hægt að vera í, það var reykur og lykt og við þurfum að hugsa um öryggi barna. Við getum ekki sett börn inn í skaðlegt húsnæði. Þegar svona gerist þá verðum við að finna leiðir. Svo fengum við þessa álmu hjá Vogi um miðjan daginn og þá gátum við farið að setja öll börn þangað inn.“

Bráðabirgðaúrræði fyrir neyðarvistun á Stuðlum ætti að vera tilbúið í …
Bráðabirgðaúrræði fyrir neyðarvistun á Stuðlum ætti að vera tilbúið í vikunni. mbl.is/Ólafur Árdal

Ekki annað hægt en að senda börn heim

Tvö þeirra barna sem keyrð voru heim, struku hins vegar að heiman mjög fljótlega eftir komuna þangað. Móðir 15 ára drengs með fíknivanda, sem tókst að strjúka eftir heimkomuna, sagði í samtali við mbl.is í morgun að strokið hefði verið viðbúið, enda hefði hann áður strokið af Stuðlum.

Hún gagnrýnir að ekki hafi verið neitt annað úrræði í boði, þar sem sonur hennar hafi ekki verið tilbúinn að koma heim. Hann var týndur í tvo sólarhringa en gaf sig sjálfur fram við lögreglu fyrir skömmu.

Ólöf segir fátt annað hafa verið í stöðunni en að börnin færu tímabundið heim. „Ekki gátum við látið börnin vera í strætó og ekki setjum við þau inn í óheilbrigt húsnæði.“ Börnin fengu skjól í strætisvagni á lóð Stuðla á meðan ákvarðanir voru teknar um framhaldið.

Gæða- og eftirlitsstofnun fer yfir málið

Bruninn er nú inni á borði miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en ekki hafa fengist upplýsingar um hugsanleg eldsupptök. Gæða- og eftirlitsstofnun mun fara yfir málið og gerir Ólöf ráð fyrir að barna- og fjölskyldustofa fái í kjölfarið skýrslu með niðurstöðunum.

Aðspurð hvort hún telji að úrbóta sé þörf, segist hún ekki geta metið það fyrr en hún fái frekari upplýsingar. „En að sjálfsögðu munum við fara yfir allt saman.“

Þannig það er ekkert sem þið sjáið strax að gæti hafa farið úrskeiðis eða verið í ólagi?

„Nei, ekkert mér vitanlega hafði verið í ólagi.“

mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert