Gaf sig fram við lögreglu kaldur og blautur

Drengurinn var orðinn kaldur og blautur þegar hann gaf sig …
Drengurinn var orðinn kaldur og blautur þegar hann gaf sig fram. mbl.is/Ólafur Árdal

15 ára drengur sem strauk eftir að hafa keyrður var heim af Stuðlum í kjölfar brunans á laugardag, er nú kominn í leitirnar. Hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu. Móðir hans staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Drengurinn var týndur í tvo sólarhringa, en hann var orðinn kaldur og blautur þegar hann gaf sig fram. 

Móðir drengsins segir hann hafa verið á vergangi frá því hann strauk. Hún hefur sjálf ekki heyrt í honum, en hefur fengið upplýsingar um að hann fari nú inn á Vog þar sem starfsemi Stuðla verður tímabundið.

Bindur vonir við að hann fái áfallahjálp 

Í samtali við mbl.is í morgun gagnrýndi móðirin það að drengurinn hefði verið keyrður heim þar sem viðbúið hafi verið að hann myndi strjúka, enda hefur hann strokið fjórum sinnum af Stuðlum. Þá gagnrýndi hún að honum hefði ekki boðist áfallahjálp. Hún bindur nú vonir við að hann fái alla þá aðstoð sem hann þarf.

„Ég vona svo sannarlega að hann fái einhvers konar áfallahjálp og einhver viðtöl. Ég veit ekkert hvað hann sá eða hvernig hann upplifði það.“

Mun væntanlega halda meðferðinni áfram

Drengurinn hafði verið vistaður á meðferðardeild Stuðla frá því í ágúst, en hann glímir við fíknivanda. Eftir því sem móðirin best veit mun hann nú halda áfram í sinni meðferð.

Í samtali við mbl.is í morgun sagði móðirin að fjölskyldan hefði verið frávita af áhyggjum alla helgina. Henni er því mjög létt. „Það er eins og 50 kíló séu farin af bringunni á mér. Við erum hérna alveg „drenuð““.

Aðspurð hvernig henni líði með að drengurinn fari inn á Vog eftir þessa uppákomu, segist hún vona að þetta fari að ganga betur.

„Maður vonar að það fari eitthvað að gerast. Þetta hefur ekki gengið vel, þessi meðferð. Það vantar eitthvað mikið upp á þessa meðferðarstofnun og vonandi fer eitthvað að breytast. Það verður eitthvað að gerast strax.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert