Hljóp yfir 300 kílómetra með rifinn liðþófa

Hlaupadrottningin Mari Järsk ætlar að taka smá frí eftir hlaupið …
Hlaupadrottningin Mari Järsk ætlar að taka smá frí eftir hlaupið í dag. mbl.is/Egill Aaron

Hlaupakonan Mari Järsk komst að því að hún væri með rifinn liðþófa skömmu áður en heimsmeistaramót bakgarðshlaupa í Elliðaárdalnum hófst.

Það stoppaði hana þó ekki frá því að hlaupa 50 hringi í hlaupinu sem hún lauk fyrr í dag. Hver hringur er 6,7 km og hljóp Mari því samtals 335 km.

Blaðamaður náði tali af Mari eftir hennar síðasta hring. Hún viðurkennir að hnén gætu verið betri.

Var erfitt að taka ákvörðun um að hætta hlaupi?

„Já, eiginlega. Ég var með rifinn liðþófa áður en ég fór í hlaupið,“ segir Mari.

Fyrir hlaupið?

„Já, það var nýkomið í ljós. Ég ákvað samt að vera með. Mig langaði ekki að missa af þessu.“

Og hvað tekur við núna?

„Ætli það komi ekki smá frí. Alla vega tvær vikur eða eitthvað. Það er ekkert fram undan.“

Telur að Elísa muni sigra

Aðspurð segist Mari telja að Elísa Kristinsdóttir sigri hlaupið en ásamt henni eru eftir í hlaupinu þau Andri Guðmundsson, Þorleifur Þorleifsson og Marlena Radziszewska og hafa keppendurnir nú hlaupið í rúma tvo sólarhringa.

„Ég held að Elísa taki þetta. Hún er virkilega búin að æfa fyrir þetta og á virkilega skilið að taka þetta,“ segir Mari.

Takk kærlega fyrir tímann. Ég ætla að leyfa þér að hvílast.

„Allt í góðu, ég þarf að drulla mér heim. Ég er búinn að liggja hérna í hálftíma,“ segir hlaupadrottningin að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert