Ingvar stefnir á fyrsta sætið fyrir Viðreisn

Ingvar Þóroddsson.
Ingvar Þóroddsson. Ljósmynd/Aðsend

Ingvar Þóroddsson tilkynnti um helgina að hann stefni á forystusæti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi í komandi þingkosningum.

Ingvar er 26 ára Akureyringur, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og lærði verkfræði við Háskóla Íslands og Berkeley-háskóla í Kaliforníu. Hann sneri þaðan heim til Akureyrar eftir lok meistaranáms og kennir núna stærðfræði og eðlisfræði við MA. 

„Mín grunngildi hafa nokkurn veginn alltaf verið þau sömu. Ég trúi á frelsi einstaklingsins, sterkt markaðshagkerfi, alþjóðasamstarf og að samfélagið skuli tryggja öllum jöfn og góð tækifæri,” segir í tilkynningu frá Ingvari sem horfir björtum augum fram á veginn.

Var í þriðja sæti fyrir síðustu þingkosningar

Hann segir það fagnaðarefni að tími ríkisstjórnarinnar sé liðinn. Kjörtímabilið hafi einkennst af óreiðu í ríkisfjármálum og óeiningu, sem hafi leitt til hárrar verðbólgu og vaxta, sem bitnar ekki síst á ungu fólki og barnafjölskyldum. 

Ingvar skipaði þriðja sæti á lista Viðreisnar í kjördæminu fyrir þingkosningarnar árið 2021. Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og á Fljótsdalshéraði, skipaði fyrsta sæti listans og Sigríður Ólafsdóttir, mannauðsráðgjafi og PCC-markþjálfi, annað sætið. Viðreisn náði ekki inn manni í kosningum en kjördæmið hefur tíu þingmenn og þar af eitt jöfnunarsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert