Innbrotið í Elko: Lítill hluti kominn í leitirnar

Verðmæti þýfisins er talið nema tugum milljóna króna.
Verðmæti þýfisins er talið nema tugum milljóna króna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan hefur náð að endurheimta lítinn hluta þeirra verðmæta sem stolið var úr verslunum Elko í Skeifunni og í Lindum í síðasta mánuði.

Heimir Ríkarðsson lögreglufulltrúi segir í samtali við mbl.is að búið sé að yfirheyra fjölda manns en verðmæti þýfisins er talið nema tugum milljóna króna.

Enginn situr lengur í gæsluvarðhaldi vegna málsins en þrír karlmenn og ein kona voru í haldi vegna málsins. Þau eru öll af erlendu bergi brotin og eru ekki með íslenskan ríkisborgararétt. Öllum var sleppt í byrjun mánaðarins.

„Það hefur fundist lítill hluti af þýfinu sem fannst á þremur stöðum hjá aðilum sem eru grunaðir um ránið,“ segir Heimir.

Heimir segir að rannsókn málsins standi enn yfir en meðal þess sem er verið að skoða hvort hluti þýfisins sé kominn úr landi.

„Það er ekki ólíklegt en við vitum það ekki á þessari stundu,“ segir Heimir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert