Jakob Frímann Magnússon, oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, mun ekki leiða lista flokksins í næstu þingkosningum. Þetta staðfestir formaður flokksins.
RÚV greindi fyrst frá.
Buðu þið honum það ekki [oddvitasætið] eða sóttist hann ekki eftir því að sitja áfram?
„Staðreyndin er bara einfaldlega sú að Jakob Frímann er ekki að leiða fyrir okkur í norðaustur,“ svarar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is.
Er hægt að segja af hverju?
„Nei, nei. Það er bara þannig,“ segir Inga.
Hún segir að búið sé að finna arftaka Jakobs og verður kynnt á morgun hverjir oddvitar flokksins í öllum kjördæmum verða.
Fyrr í dag var greint frá því að Tómas A. Tómasson, oddviti flokksins í Reykjavík norður, myndi ekki leiða það kjördæmi í komandi kosningum.
Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að hann myndi vilja halda áfram.