Með verk í sköflungnum í 30 klukkutíma

Stund á milli stríða hjá Elísu í dag.
Stund á milli stríða hjá Elísu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm keppendur eru eftir af þeim 15 sem hófu keppni í heimsmeistaramóti landsliða í bakgarðshlaupum í Elliðaárdalnum í Reykjavík.

Þegar blaðamann bar að garði í hádeginu höfðu keppendurnir hlaupið í tvo sólarhringa og voru að ljúka við 48. hringinn. Nú rétt í þessu lögðu þau svo af stað í 51. hringinn.

Fimm keppendur eru eftir.
Fimm keppendur eru eftir. mbl.is/Árni Sæberg

Eftir eru þau Mari Järsk, Elísa Kristinsdóttir, Andri Guðmundsson, Þorleifur Þorleifsson og Marlena Radziszewska. Mari kom síðust í mark á hádegi, nokkrum mínútum á eftir hinum, og fékk því minni tíma en hinir til að hvíla sig, þar sem hver hringur hefst á heila tímanum.

Mari hvílir sig á milli hlaupa.
Mari hvílir sig á milli hlaupa. mbl.is/Árni Sæberg

Í heild keppa yfir 60 lönd í heimsmeistaramótinu og hleypur hvert þeirra í sínu eigin landi. Hófst keppnin á nákvæmlega sama tíma allsstaðar.

Hleypur þangað til hún dettur niður

„Ég er bara mjög góð og er í rauninni búin að vera það alveg frá því ég byrjaði að hlaupa,“ sagði Elísa, sem ræddi við blaðamann rétt áður en hún lagði af stað í 49. hringinn.

„Skrokkurinn er í lagi fyrir utan það að ég búin að vera með verk í sköflungnum í svona 30 klukkutíma,“ bætti hún við.

Andri Guðmundsson hvílr sig.
Andri Guðmundsson hvílr sig. mbl.is/Árni Sæberg

Aðspurð sagði hún að vel hefði gengið að hlaupa í nótt. „Það kom mér á óvart út af því að í maí gekk nóttin hræðilega hjá mér, þannig að þetta var mjög skemmtilegt að nóttin hafi gengið svona vel núna.“ Sagðist hún jafnframt eiga nóg inni í hlaupunum.

Hvað ætlarðu að hlaupa lengi?

„Þangað til ég dett niður, held ég,“ sagði hún og hló áður en hún rauk af stað í næsta hring.

Elísa að leggja af stað í 49. hringinn.
Elísa að leggja af stað í 49. hringinn. mbl.is/Freyr

Mikilvægt að borða, drekka og hvílast

Blaðamaður náði einnig tali af Hafdísi Guðrúnu Hilmarsdóttur, sem er í þjálfarateymi Elísu og hugsar um hana þegar hún hvílir sig á milli hringja.

Hafdís Guðrún sagði að met Elísu væri 56 hringir og taldi hún líklegt að hún myndi slá það í þessu bakgarðshlaupi. Metið var sett í maí síðastliðnum.

Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir, aðstoðarkona Elísu.
Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir, aðstoðarkona Elísu. mbl.is/Freyr

„Það skiptir rosalega miklu máli að ná að borða og drekka og hvílast. Hún er hraður hlaupari, þannig að hún hefur góðar pásur, eins og í nótt. Næturbrautin er fljótari yfirferðar en dagbrautin,“ bætti hún við um Lovísu, sem varð önnur í bakgarðshlaupi Náttúruhlaupa í maí.

Hlaupararnir Elísa, í úlpu til vinstri, og Mari að leggja …
Hlaupararnir Elísa, í úlpu til vinstri, og Mari að leggja af stað. mbl.is/Freyr
Mari gerir sig klára í næsta hring.
Mari gerir sig klára í næsta hring. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert