Nágrannaerjur: Hafnaði kröfu um ólögmætan fund

Deilt var um lögmæti fundargerðar vegna húsfundar sem haldinn var …
Deilt var um lögmæti fundargerðar vegna húsfundar sem haldinn var 23. júní 2022. Kona byggði á því að fundargerðin væri ólögmæt og vísvitandi hefði verið reynt að koma í veg fyrir þátttöku hennar. Kærunefndin komst þó að þeirri niðurstöðu að hafna kröfu konunnar. Ljósmynd/Colourbox

Kærunefnd húsnæðismála hefur hafnað kröfum íbúa fjöleignarhúss að fundargerð húsfundar væri ólögleg sem og að sjálfur fundurinn, sem fór fram árið 2022, hefði verið ólögmætur. 

Fram kemur í áliti nefndarinnar að um sé að ræða hús sem skiptist alls í fjóra eignarhluta, en ekki kemur fram hvar umrætt fjöleignarhús er staðsett. Tekið er fram að álitsbeiðandi, sem er kona, sé eigandi íbúðar á 3. hæð en gagnaðilar B séu eigendur íbúðar á 4. hæð. 

Fundargerð hafi verið ólögmæt og húsfundur ólöglegur

Kröfur álitsbeiðanda voru eftirfarandi:

„Að viðurkennt verði að fundargerð húsfundar sem haldinn var 23. júní 2022 sé ólögleg og að hinn meinti húsfundur sé ólögmætur. Einnig að viðurkennt verði að þær ákvarðanir sem sagðar hafi verið teknar á fundinum séu ógildar og í engu bindandi fyrir álitsbeiðanda. Þá gerir álitsbeiðandi kröfu um að viðurkennt verði að gagnaðila beri að afhenda álitsbeiðanda staðfest endurrit/ljósrit af öllum fundargerðum frá 1. janúar 2020 til og með september 2023.“

Hafi vísvitandi verið að reyna að koma í veg fyrir þátttöku konunnar

Í áliti nefndarinnar segir enn fremur, að í álitsbeiðninni komi fram að gagnaðilinn hafi ítrekað hunsað beiðnir álitsbeiðanda um staðfest ljósrit af fundargerðum í fundargerðarbók húsfélagsins.

Í fundargerð húsfundar 23. júní 2022 hafi hvergi komið fram hvar hinn meinti fundur hafi verið haldinn, ekkert hafi verið getið um að kosinn hafi verið fundarstjóri eða fundarritari tilnefndur, ekki hafi verið getið um það að fundargerðin hafi verið rituð í sérstaka fundargerðarbók í eigu húsfélagsins og hvergi hafi komið fram að fundargerðin hafi verið lesin upp í lok fundar og hún leiðrétt í samræmi við athugasemdir eftir atvikum. Þannig hafi hún brotið með margvíslegum hætti gegn 64. gr. laga um fjöleignarhús.

Konan heldur því fram að þarna hafi augljóslega verið brotinn á henni réttur og greinilega vísvitandi verið að koma í veg fyrir þátttökku hennar á fundinum. 

Fundi frestað eftir Covid-smit

Gagnaðili kveður málið eiga rætur að rekja til ágreinings aðila vegna nýframkvæmda á svölum gagnaðila.

Fram kemur í álitinu, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi verið boðað til húsfundar sem halda skyldi 20. júní 2022 með tölvupósti til eigenda allra 14. sama mánaðar. Fundinum var frestað til 23. júní vegna útsetningar á Covid-smiti hjá einum eiganda.

Álitsbeiðandi tilkynnti með tölvupósti sama dag og téður húsfundur fór fram að hún væri með hita og dóttir hennar hefði verið útsett fyrir Covid-smiti og því þyrfti að fresta fundi um óákveðinn tíma. Húsfundurinn var engu að síður haldinn en álitsbeiðandi mætti ekki. Konan kvaðst hafa verið í góðri trú um að fundinum hefði verið frestað þar sem engin andmæli hefðu komið fram.

Fundargerð húsfundarins var síðan send eigendum öllum með tölvupósti 25. júní.

Álitsbeiðandi byggir á því að téð fundargerð sé ólögmæt enda sé fundarstaður ekki tilgreindur, ekkert sé getið um að kosinn hafi verið fundarstjóri eða fundarritari tilnefndur, ekkert sé getið um það að fundargerðin hafi verið rituð í sérstaka fundargerðarbók í eigu húsfélagsins og hvergi komi fram að fundargerðin hafi verið lesin upp í lok fundar og hún leiðrétt í samræmi við athugasemdir eftir atvikum. Þá hafi enginn undirritað fundargerðina.

Ekki í andstöðu við lög

Kærunefnd telur að þrátt fyrir að ætla megi að almennt tíðkist að tilgreina fundarstað í fundargerðum sem og nöfn þeirra sem taka að sér fundarstjórn og fundarritun þá sé það ekki í andstöðu við ákvæði fjöleignarhúsalaga að slíkt sé ekki gert.

Þá telur nefndin að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir í 3. mgr. 64. gr. fjöleignarhúsalaga að fundargerð skuli lesin upp í lok fundar, hún leiðrétt og athugasemdir skráðar þá er engin þörf á sérstakri bókun hér um í fundargerð nema eftir atvikum það hafi komið fram leiðréttingartillögur eða athugasemdir.

Vegna athugasemda um að fundargerðin hafi ekki verið rituð í sérstaka fundargerðarbók telur nefndin að tilgangur þess að kveðið sé á um í 2. mgr. 64. gr. fjöleignarhúsalaga að fundargerðir skuli ritaðar í sérstaka fundargerðarbók sé að ganga úr skugga um að fundargerðum sé almennt haldið til haga með tryggilegum og aðgengilegum hætti fyrir eigendur, en engin efni eru til að fallast á að slíkur annmarki á fundargerð að hún hafi ekki verið rituð í sérstaka fundargerðarbók geti leitt til ógildingar húsfundar eða þeirra ákvarðana sem á honum eru teknar.

Fráleitt að geti valdið ólögmæti fundargerðar

Þá segir, að fundargerðin hafi ekki verið undirrituð af fundarstjóra og fundarritara en engar athugasemdir hafi þó borist við efni hennar er eigendur fengu hana senda tveimur dögum eftir fundinn, þar með talið álitsbeiðandi.

Virðist því ekki vafi um réttmæti þess sem fram kemur í fundargerðinni og fráleitt að geti valdið ólögmæti fundargerðar eða fundar að þessi háttur hafi verið hafður á að því er virðist með samþykki allra, að því er segir í álitinu. 

Þá gerir álitsbeiðandi til viðbótar kröfu um að gagnaðili B afhendi staðfest ljósrit/endurrit af öllum fundargerðum frá 1. janúar 2020 til og með september 2023. Álitsbeiðandi nefnir að á fundi sínum með D hafi henni verið bent á skýr lagaákvæði um húsfundi og fundargerðir en í framhaldi af því hafi hún farið að óska eftir afriti af löglegum og staðfestum fundargerðum í fundargerðarbók.

Þá fullyrðir álitsbeiðandi að gagnaðili B hafi kynnt sig sem formann húsfélagsins gagnvart verktökum og tekið að sér fundarstjórn og fundarritun á húsfundum og hún því óskað eftir fundargerðunum frá henni.

Ekki annað að sjá en að allir eigendur hafi verið upplýstir

Í málsgögnum gagnaðila er ferli vegna framkvæmdanna ítarlega rakið frá árinu 2020 og verður ekki annað ráðið af því en að eigendur allir hafi verið upplýstir, fengið aðgang að gögnum og allir jafnan mætt á húsfundi.

Kærunefnd telur að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að komið hafi verið í veg fyrir aðgengi álitsbeiðanda að gögnum húsfélagsins. Að öllu þessu virtu var því kröfu álitsbeiðanda hér um hafnað.

Tekið er fram að álit nefndarinnar hindri ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka