Birta drög að tillögum um traustari fasteignakaup

Tillögur starfshópsins eru í samráðsgátt til 22. nóvember.
Tillögur starfshópsins eru í samráðsgátt til 22. nóvember. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Menningar- og viðskiptaráðherra hefur birt drög að tillögum starfshóps um gerð tillagna að lagabreytingum á sviði fasteignakaupa í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Tillögurnar miða að því að auka neytendavernd og réttaröryggi á sviði fasteignakaupa. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

Segir þar að starfshópnum hafi verið falið að bregðast við efni þingsályktunar um ástandsskýrslur fasteigna, og móta tillögur til breytinga á viðeigandi lögum um fasteignakaup í samræmi við efni þingsályktunarinnar, með áherslu á réttaröryggi og aukna neytendavernd.

Kemur fram að með tillögunum sé verið að bregðast við efni fyrrnefndrar þingsályktunar er varðar aðallega ástandsskoðanir fasteigna, framkvæmd þeirra og ábyrgð á göllum, ásamt öðrum tillögum er miða allar að því að auka gæði og skilvirkni í fasteignaviðskiptum.

Bæta upplýsingar um ástand fasteignar

Þá eru helstu nýmæli sem lögð eru til tvíþætt breyting á réttarstöðu við fasteignakaup.

„Að aukin verði skylda seljanda til upplýsingagjafar um ástand fasteignar sem hann býður til sölu, með því að gera að lagaskyldu að seljandi fylli út og undirriti spurningalista með stöðluðum spurningum um ástand og viðhald fasteignar.

Að lögfest verði heimild í lög um fasteignakaup, nr. 40/2002, um að kaupandi geti, innan 48 klst. frá því að samþykki kauptilboðs kemst til vitundar hans, óskað eftir því að fram fari ástandsskoðun á þeirri fasteign sem um ræðir,“ segir í tilkynningunni.

Segir þar enn fremur að tillögurnar leggi upp með bæta upplýsingar um ástand fasteignar sem leiða til fækkunar á ágreiningsmálum í kjölfar sölu á íbúðarhúsnæði. Þannig aukist líkur á að mögulegir gallar á fasteign verði leiddir í ljós á fyrri stigum viðskiptanna.

Þá kemur fram að með tillögunum er tilboðsgjöfum gert jafnt undir höfði og dregið úr líkum á því að þegar mikil eftirspurn er eftir íbúðarhúsnæði að kaupandi sinni ekki skoðunarskyldu sinni, sem og seljandi upplýsingaskyldu sinni.

Gert auðveldara að gæta hagsmuna bæði kaupanda og seljanda

„Ríkari leiðbeiningarskylda af hálfu fasteignasala við sölu fasteignar verður að teljast eðlileg afleiðing þeirra nýmæla sem lögð eru til, bæði varðandi veitingu upplýsinga til seljanda um þýðingu upplýsingagjafar og til kaupanda með ráðleggingum um heimildina til að óska eftir ástandsskoðun fasteignar í samræmi við útfyllingu spurningalista af hálfu seljanda fasteignar. Með því móti ætti fasteignasölum að vera gert auðveldara að gæta hagsmuna bæði kaupanda og seljanda í fasteignaviðskiptum.“ 

Kemur þá einnig fram að samhliða því að bregðast við efni þingsályktunarinnar hafi starfshópnum verið falið að taka til skoðunar aðrar tillögur á sviði fasteignakaupa er varða hlutverk fasteignasala og fyrirkomulag tilboðsgerðar- og samþykktar auk möguleika á fyrirkomulagi á úrlausn ágreinings kaupenda og seljenda utan dómstóla.

Segir að starfshópnum þótti rétt að áfangaskipta þeim breytingum sem lagðar hafa verið til og hefur hann einblínt á tillögur er varða ástandsskoðun fasteigna, framkvæmd og ábyrgð á þeim. 

Starfshópurinn telji hins vegar tilefni til að vekja athygli á afstöðu sinni til þeirra atriða og hvetur til frekari skoðunar á þeim.

Í samráðsgátt til 22. nóvember

„Miða tillögurnar að því að auka neytendavernd og réttaröryggi á sviði fasteignakaupa, með því að tryggja að kaupandi, seljandi og fasteignasali eru í betri stöðu en áður til þess að sinna lagaskyldum og gæta hagsmuna sinna Tillögurnar eru í samræmi við áherslur í tillögu til þingsályktunar um stefnu í neytendamálum til 2030, og aðgerðaáætlun hennar, sem lögð hefur verið fram á 155. löggjafarþingi.

Óskað er eftir umsögnum um tillögur starfshópsins, sem finna má í heild sinni hér. Tillögurnar eru í samráðsgátt til 22. nóvember.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert