BM Vallá og Kapp hlutu umhverfisverðlaun

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár, tók við umhverfisverðlaunum atvinnulífsins fyrr …
Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár, tók við umhverfisverðlaunum atvinnulífsins fyrr í dag. Ljósmynd/Aðsend

BM Vallá og Kapp voru afhent Umhverfisverðlaun atvinnulífsins í dag. BM Vallá var valið umhverfisfyrirtæki ársins 2024 og Kapp fékk verðlaun fyrir umhverfisframtak ársins 2024.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og verðlaunahafar fyrra árs afhentu verðlaunin við hátíðlega athöfn í dag.

Vistvæna steypan Berglind

Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins segir að sjálfbær nýting auðlinda og umhverfismál vera rauður þráður í starfsemi BM Vallá. Fyrirtækis sem hefur sett sér það markmið að verða umhverfisvænsti steypuframleiðandi landsins.

BM Vallá stefnir að því að gera starfsemi sína og steypuframleiðslu kolefnishlutlausa árið 2030.

Í umsögn dómnefndar um BM Vallá er meðal annars bent á nýsköpun innan fyrirtækisins um vistvænni lausnir í mannvirkjagerð.

Er þar nefnt sem dæmi vistvæna steypan Berglind sem skilur eftir sig allt að 45% minna kolefnisspor en hefðbundin steypa.

Haft er eftir Þorsteini Víglundssyni, forstjóra BM Vallár, í tilkynningunni:

„Við erum þakklát fyrir þennan heiður sem er til marks um að áherslur okkar í umhverfismálum séu eftirtektarverðar og hafi skilað raunverulegum árangri. Þennan árangur eigum við öflugu starfsfólki, viðskiptavinum og samstarfsaðilum að þakka sem deila þeirri sýn að breyta þurfi nálgun við hönnun og byggingu mannvirkja. Samnefnari þeirra áherslna er metnaður, drifkraftur og þor til að leiða fram breytingar þar sem umhverfisvænni lausnir gegna lykilhlutverki. Að vera valin umhverfisfyrirtæki ársins er mikil hvatning til að gera enn betur í þróun lausna sem hafa jákvæðari umhverfisáhrif. Við hlökkum til að halda áfram til að leggja okkar af mörkum til að byggja vistvænni framtíð.“

Ný krapavél

Kapp er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í kæliþjónustu, vélasmíði, innflutningi og þjónustu á tækjabúnaði í sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað.

OptimICE krapavél fyrirtækisins hefur verið í framleiðslu í 25 ár og nú er komin ný krapavél sem nýtir koldíoxíð sem kælimiðil í stað F-gasa til að kæla fisk fljótt niður fyrir frostmark án þess að frjósa.

Í tilkynningu er Krapavélin sögð nýjung sem stuðli að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda með því að skipta út kælimiðlum með mjög mikinn hlýnunarmátt.

Vonir eru bundnar við að hægt verði að nýta krapavélina til kælingar í annarri matvinnslu eins og í kjúklingavinnslu og stærri bakaríum.

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja formaður dómnefndar, Reynir Smári Atlason, CreditInfo, Elma Sif Einarsdóttir, Stiku umhverfislausnum og Jóna Bjarnadóttir, Landsvirkjun.

Kapp er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í kæliþjónustu, vélasmíði, innflutningi …
Kapp er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í kæliþjónustu, vélasmíði, innflutningi og þjónustu á tækjabúnaði í sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert