Breytileiki í jarðhitakerfi líkleg skýring

Ferðamenn skoða hverinn Strokk við Geysi í Haukadal.
Ferðamenn skoða hverinn Strokk við Geysi í Haukadal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekkert í gögnum Veðurstofu Íslands bendir til þess að óvenjuleg og aukin hveravirkni við Geysi í Haukadal tengist öðru en breytileika í jarðhitakerfinu.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands.

„Það er ekkert alveg vitað en svona hverasvæði og jarðhitasvæði þau eru breytileg. Það er ólíklegt að þetta sé neitt nema breytileiki í jarðhitakerfinu,“ segir Benedikt Gunnar, spurður hvort Veðurstofan viti um ástæður virkninnar.

Benedikt Gunnar Ófeigsson.
Benedikt Gunnar Ófeigsson. mbl.is/Eyþór

Hann bendir á að jarðhitakerfi séu mjög næm fyrir grunnvatnsþrýstingi og ef hann lækkar þá geti virknin aukist.

Hafið þið áhyggjur af stöðu mála þarna?

„Þetta er varhugavert fyrir fólk sem er þarna nálægt en ekkert umfram það,“ svarar Benedikt Gunnar og bendir á Umhverfisstofnun í sambandi við mögulegar ráðstafanir af þeirra hálfu á svæðinu.

„Í bili er þetta ekkert sem menn þurfa að hafa miklar áhyggjur af nema að fara mun varlegar í nágrenni við hverina ef þeir eru virkari.“

Hann segir Veðurstofuna ætla að skoða málið aðeins betur en nefnir að ekkert í vöktunargögnum hennar bendi til eins né neins óvenjulegs á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert