Carbfix hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands

Carbfix á Nesjavöllum.
Carbfix á Nesjavöllum. mbl.is/Arnþór

Nýsköpunarverðlaun Íslands 2024 voru í dag veitt nýsköpunarfyrirtækinu Carbfix sem hefur þróað og markaðssett tækni til að binda koldíoxíð og brennisteinsvetni varanlega í bergi.

Kári Helgason, forstöðumaður rannsókna og nýsköpunar hjá Carbfix, og Ragna Björk Bragadóttir, sérfræðingur styrkverkefna, veittu verðlaununum viðtöku úr hendi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í lok Nýsköpunarþings í Grósku í dag.

„Verðlaunin eru kærkomin viðurkenning á framlagi allra þeirra sem hafa komið að þróun Carbfix tækninnar gegnum tíðina. Tækifærin til nýsköpunar í loftslagslausnum eru mikil og við höldum áfram að gera okkar tækni skilvirkari og  hagkvæmari, til að mynda með því að skipta út ferskvatni fyrir sjó,” segir Kári í tilkynningu.

Holutopphús Carbfix.
Holutopphús Carbfix. Ljósmynd/Carbfix

Rökstuðningur dómnefndar

Fram kemur í rökstuðningi dómnefndar að heimurinn standi frammi fyrir hamförum á sviði loftslagsbreytinga af mannavöldum á næstu áratugum og að baráttan gegn þeim sé eitt stærsta viðfangsefni mannkyns nú um stundir.

„Samkvæmt Parísarsamkomulaginu frá árinu 2015, sem Ísland er aðili að, er stefnt að því að hitastig á jörðinni árið 2050 verði ekki meira en 1,5°C hærra en það var fyrir iðnbyltingu. Það markmið mun ekki nást án verulegs samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Það mun þó ekki duga til eitt og sér og til viðbótar við minni losun þarf að koma til stórfelld og varanleg binding á koldíoxíði úr andrúmsloftinu. Carbfix hefur á skömmum tíma tryggt sér leiðandi stöðu á því sviði á heimsvísu. Verkefnin eru mjög stórhuga og geta náð skala sem gæti skipt máli fyrir heiminn allan. Loftslagsmál eru í eðli sínu alþjóðlegt vandamál sem ekki virðir landamæri og til að ná árangri í baráttunni gegn þeim þarf öflugt alþjóðlegt samstarf. Carbfix á í samstarfi við aðila sem miða að uppbyggingu verkefna sem byggja á tækni fyrirtækisins um allan heim,“ segir dómnefndin.

„Tækni Carbfix hefur þegar staðfest vísindalegt og viðskiptalegt gildi sitt. Fyrirtækið hefur tryggt hugverkaréttindi sín með einkaleyfum og skráningu vörumerkja og er eitt fyrsta íslenska fyrirtækið sem fær einkaleyfi á tækni sem tengist orkugeiranum. Sýnt hefur verið fram á vísindalegt gildi með birtingu tuga ritrýndra vísindagreina í virtum, alþjóðlegum vísindatímaritum. Þá hefur fyrirtækið sannað viðskiptalegt gildi með því að skapa umtalsverðar tekjur með sölu á varanlegri bindingu á koldíoxíði á Hellisheiði, auk þess sem það bindur stóran hluta þess koldíoxíðs og brennisteinsvetnis sem kemur frá Hellisheiðarvirkjun. Unnið er að undirbúningi á niðurdælingu á mun stærri skala í Coda Terminal verkefninu í Straumsvík sem nú er í umhverfismati. Til þess verkefnis hefur fyrirtækið sótt stærsta Evrópustyrk sem nokkurs sinni hefur verið veittur til íslensks fyrirtækis. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á rannsóknir og þróun og vinnur nú m.a. að rannsóknum á fýsileika þess að nota sjó í stað ferskvatns. Þá hefur fyrirtækið vakið umtalsverða alþjóðlega fjölmiðlaathygli,“ segir hún einnig í rökstuðningi sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert