Elva um Ragnar: „Þetta heitir að teygja anga sína“

Elva Hrönn Hjartardóttir.
Elva Hrönn Hjartardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elva Hrönn Hjartardóttir stjórnmálafræðingur segir það áhugavert og siðlaust að Ragnar Þór Ingólfsson telji að framboð sitt fyrir Flokk fólksins muni ekki hafa áhrif á stöðu hans sem formaður VR.

Elva bauð sig fram til formanns VR í fyrra en laut í lægra haldi fyrir Ragnari.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, staðfesti við mbl.is í dag að Ragnar myndi leiða framboðslista í öðru Reykjavíkurkjördæminu í næstu þingkosningum. Ragnar hyggst ekki láta af störfum hjá VR á meðan.

Elva Hrönn segir tíðindin ekki koma á óvart. Í færslu á Facebook sem hún ritaði í kvöld segir hún Ragnar hafa notið stuðnings frá flokknum þegar hún bauð sig fram gegn honum í formannskosningum VR á síðasta árið. 

„[O]g þingkona flokksins nýtti hvert tækifæri til að ata mig auri,“ ritar Elva á Facebook.

Segir hræsnina eiga sér engin takmörk

Elva veltir því fyrir sér hvort formaðurinn muni áfram þiggja laun á meðan framboðinu stendur.

„Þetta er sérstaklega áhugavert þar sem að honum fannst ég of pólitísk til að sinna störfum fyrir VR á sínum tíma og sérstaklega áhugavert í ljósi þess að það eina sem hann og kosningamaskínan hans fundu gegn mér var að ég væri of tengd stjórnmálunum, af því að ég var skráð í stjórnmálaflokk - en fannst ekki annað við hæfi en að segja mig úr stjórn flokksins þegar ég fór í formannsframboð,“ skrifar Elva og bætir við:

„Og nú fer maðurinn í framboð á launum sem formaður VR. Hræsnin á sér engin takmörk!“

Tekur hún þá einnig fram að Ragnar sé einnig formaður Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og 1. varaforseti Alþýðusambands Íslands.

„Þetta heitir að teygja anga sína.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert