Hákon og Oddur metnir hæfastir

Um er að ræða embætti við Héraðsdóm Vestfjarða og Héraðsdóm …
Um er að ræða embætti við Héraðsdóm Vestfjarða og Héraðsdóm Austurlands. Samsett mynd

Hákon Þorsteinsson og Oddur Þorri Viðarsson eru metnir hæfastir umsækjenda til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara sem nýlega voru auglýst laus til umsóknar. Um er að ræða embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Austurlands og embætti dómara sem mun hafa starfsstöð við Héraðsdóm Vestfjarða, en sinna störfum við alla héraðsdómstólana eftir ákvörðun dómstólasýslunnar.

Sjö sóttu um embættin og sóttu allir um bæði embættin. Einn dró umsókn sína síðar til baka. Þau sem sóttu um voru: Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður héraðsdómara, Hákon Þorsteinsson lögfræðingur, Oddur Þorri Viðarsson lögfræðingur, Ólafur Egill Jónsson, aðstoðarmaður héraðsdómara, Sólveig Ingadóttir, aðstoðarmaður héraðsdómara og Sverrir Sigurjónsson lögmaður.

Í umsögn dómnefndar, sem skilað hefur verið til dómsmálaráðherra, kemur fram að mat nefndarinnar sé að Hákon og Oddur séu hæfastir og að ekki verði gert upp á milli þeirra tveggja.

Hákon er 44 ára og lauk lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og meistaraprófi frá sama skóla 2008. Þá útskrifaðist hann með viðbótardiplóma á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands í fyrra. Hann hefur verið með héraðsdómsréttindi síðan 2009. Hann hefur meðal annars starfað við lögfræðiráðgjöf hjá Kaupþing banka, sem héraðsdómslögmaður, sem aðstoðarmaður héraðsdómara, sem settur héraðsdómari, aðstoðarmaður dómara við Landsrétt, settur skrifstofustjóri við Landsrétt í fjóra mánuði og sem settur dómstjóri við Héraðsdóm Vestfjarða í tvo mánuði.

Oddur er 38 ára og er með BA-próf og meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Þá lauk hann viðbótardiplómu í gagnrýnni hugsun og siðfræði frá sama skóla á þessu ári. Hann hefur verið fulltrúi á lögmannsstofu, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu og starfað meðal annars með nefnd um umbætur á sviði tjáningar-, fjölmiðla og upplýsingafrelsis og komið að gerð nokkurra lagafrumvarpa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert