Hjúkrunarheimili uppfyllir ekki sett skilyrði

Í húsnæðinu eru tíu hjúkrunarrými og átta þeirra fjórtán fermetrar …
Í húsnæðinu eru tíu hjúkrunarrými og átta þeirra fjórtán fermetrar að stærð. Íbúar þeirra herbergja þurfa að deila bað- og salernisaðstöðu sökum smæðar herbergjanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Kópavogsbær hefur ákveðið að endurnýja ekki samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) vegna reksturs hjúkrunarheimilisins Roðasala. Þess í stað hefur verið ákveðið að framlengja núgildandi samning þar til að heimilið flytur starfsemi sína í hjúkrunarrými Hrafnistu við Boðaþing vorið 2025.

Framlenging núgildandi samnings var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Kópavogs. Meðal röksemda fyrir framlengingu og gegn endurnýjun voru að hjúkrunarheimilið uppfylli ekki sett skilyrði sem um starfsemina gilda og samningur við SÍ byggir á.

Íbúar fluttir á önnur heimili

Kópavogsbær hefur rekið Roðasali undanfarin 20 ár með daggjöldum frá ríkinu og viðbótarframlagi frá bænum.

Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að eftirspurn eftir þjónustu heimilisins aukist stöðugt og að starfsemin uppfylli ekki þau skilyrði sem sett eru fram í kröfulýsingu sem um starfsemina gilda og samningur bæjarins við SÍ byggir á.

Ástæður þess eru sagðar vera óhentugt húsnæði og smá eining. Almennt sé gert ráð fyrir því að íbúi hjúkrunarheimilis geti dvalið þar til æviloka og að þegar lífslok nálgast sé það hlutverk heimilisins að veita líknandi meðferð.

Því er ekki unnt að verða við í húsnæði Roðasala og þess vegna hefur þurft að flytja íbúa á önnur hjúkrunarheimili þegar heimilið ræður ekki lengur við þarfir þeirra.

Herbergi einungis fjórtán fermetrar

Í húsnæðinu eru tíu hjúkrunarrými og átta þeirra fjórtán fermetrar að stærð. Íbúar þeirra herbergja þurfa að deila bað- og salernisaðstöðu sökum smæðar herbergjanna.

Þá hefur einnig reynst erfitt að beita nauðsynlegum hjálpartækjum í smærri herbergjunum.

Búið er að ræða við aðstandendur íbúa í Roðasölum og í tilkynningu segir að áhersla sé lögð á að vel verði staðið að flutningi íbúa.

Þá segir enn fremur að ekki verði breyting á rekstri á dagdvöl sem rekin er í hluta Roðasala.

Til stendur að flytja íbúa heimilisins í húsnæði Hrafnistu við …
Til stendur að flytja íbúa heimilisins í húsnæði Hrafnistu við Boðaþing í Kópavogi. Ljósmynd/Hrafnista
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert