Inga brjóti reglur og taki sér alræðisvald

Össur vandar Ingu Sæland ekki kveðjurnar.
Össur vandar Ingu Sæland ekki kveðjurnar. Samsett mynd

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, segir Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, þverbrjóta reglur flokksins, með því að taka sér alræðisvald og reka þingmenn úr framboði sem dansi ekki eftir hennar höfði.

Þetta kemur fram í færslu hans á Facebook sem ber yfirskriftina: „Valdaspilltur leiðtogi“.  Össur vísar í færslunni til þess að tveir sitjandi þingmenn flokksins, hafi verið settir út í kuldann og ekki boðið oddvitasæti.

Segir hann gjörninginn einkennast af valdníðslu og fyrirlitningu gagnvart lýðræðislegum vinnubrögðum, á sama tíma og hún tali sig móða um skort á lýðræði - nú síðast þegar starfsstjórn var mynduð

„Opinber brottrekstur Jakobs Frímanns (og Tomma í Búllunni) úr framboði er ekki aðeins ólýðræðislegur gjörningur hjá leiðtoga sem alltaf er með túlann fullan af lýðræðishjali heldur hreinasta valdníðsla af hennar hálfu. Það sést gjörla þegar rennt er yfir einföld og skýr lög Flokks fólksins á heimasíðu hans,“ segir meðal annars í færslunni.

Formaður hafi ekki frumkvæðisrétt

Greint hefur verið frá því að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, muni leiða flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður, en Inga leiðir sjálf í Reykjavík suður. Tómas A Tómasson var áður oddviti flokksins í Reykjavík.

Þá tekur Sigurjón Þórðarson, varaþingmaður flokksins, oddvitasæti í Norðausturkjördæmi þar sem Jakob Frímann var oddviti.

Össur bendir á að það standi svart á hvítu í lögum flokksins að uppstillinganefnd, skipuð af kjördæmaráði, sem geri tillögu að framboðslista. Í kjölfarið fjalli kjördæmisráð og stjórn um tillöguna a formlegum fundum. Formaðurinn hafi ekki einu sinni frumkvæðisrétt að tilnefningum, hvað þá að gefa út tilskipanir um að tilteknir flokksmenn megi ekki vera í efstu sætum.

Með ólíkindum að svona geti gerst

„Gjörningurinn felur því ekki aðeins í sér fyrirlitningu á þeim lýðræðislegu vinnubrögðum sem hún krefst dag hvern úr ræðustól Alþingis, heldur líka óvanalega gróft brot á lögum flokksins.“

Segir Össur með ólíkindum að svona gerist á Íslandi á þriðja áratug 21. aldarinnar og spyr sig hvort þetta sé tilkomið vegna þess að Jakob hafi meira fylgi en Inga í sínu kjördæmi.

„Jakob Frímann er ástsæll listamaður sem á vild alls staðar enda merkilegt eintak. Enginn hefur náð meiri árangri fyrir kjarabaráttu listamanna en hann. Á sínum tíma var hann hvalreki fyrir Flokk fólksins og náði óvæntum og næsta ótrúlegum árangri með afar óhefðbundinni kosningabaráttu. Í dag er mesta fylgi Flokks fólksins einmitt í hans kjördæmi.

Gæti verið að það sé þyrnir í auga drottningarinnar að hann hefur meira fylgi en hún í sínu kjördæmi?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert