Inga til Össurar: „Líttu þér nær“

Inga hefur svarað gagnrýni Össurar.
Inga hefur svarað gagnrýni Össurar. Samsett mynd

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir Össuri Skarphéðinssyni að líta sér nær og huga að eigin kosningabaráttu.

Össur sakaði hana nýlega um að þverbrjóta reglur síns eigins flokks með því að taka sér alræðisvald og reka þingmenn úr framboði í kjölfar frétta um að Jakob Frímann Magnússon og Tómas Tómasson haldi ekki oddvitasætum.

Rógburður, illmælgi og á sér enga stoð í raunveruleikanum

Inga hefur nú svarað gagnrýni Össurar með myndskeiði sem hún birti á Facebook-síðu sinni.

„Ég er nú bara að koma til þess að senda kærleikskveðju til Össurar Skarphéðinssonar og vina hans í Samfylkingunni,“ segir Inga í myndskeiðinu.

Hún segir það dapurt að sjá eðli Samfylkingarmanna gjósa upp með rógburði, illmælgi og einhverju sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.

Veit ekkert um innra starf flokksins

„Össur Skarphéðinsson er ekki regluvörður Flokks fólksins. Hann veit ekkert um innra starf Flokks fólksins. Hann veit ekkert hversu lýðræðislegt og hversu fallegt starf Flokks fólksins er, hversu smurð og falleg okkar kosningavél er og hvað við höldum þétt utan um hvert annað í allri okkar baráttu.

Þannig ég segi bara áfram veginn og Össur Skarphéðinsson, líttu þér nær og hugaðu að þinni eigin kosningabaráttu og lofaðu öðrum að fá að vera í friði sem lofa gull á alveg nýju miði,“ segir formaðurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert