Kærir Pírata til Persónuverndar vegna skjáskota

Hans Benjamínsson er einn þeirra sem var í einkaspjalli sem …
Hans Benjamínsson er einn þeirra sem var í einkaspjalli sem lekið var og tekið fyrir á fundi þingflokks Pírata. Samsett mynd

Fyrrverandi starfsmaður Pírata og þátttakandi í stjórnmálastarfi flokksins hefur kært þingflokk Pírata til Persónuverndar. Ástæðan er sú að þingflokkurinn komst yfir og ræddi skjáskot úr einkaspjalli hans og sjö annarra á þingflokksfundi.

Spjallið snéri m.a. að því þegar hópurinn var að skipuleggja sig í aðdraganda kjörs til framkvæmdastjórnar í flokknum. Niðurstaða kjörsins olli deilum innan raða Pírata.

Eftir að skjáskotin voru rædd á þingflokksfundi varð úr að Atli Thor Fanndal, samskiptastjóri Pírata, missti starf sitt.

Hans Benjamínsson er í hverfisstjórn flokksins í Kópavogi og var einn þátttakenda í spjallinu. Hann hefur kært þingflokkinn til Persónuverndar.

Taldi ferska vinda blása 

„Ég hafði ekki verið mjög virkur í starfinu í einhvern tíma en fékk veður af því að ferskir vindar væru að blása um flokkinn og nýtt fólk að koma inn. Mér fannst það mjög áhugavert og skemmtilegt. Svo frétti ég af því að Halldór Auðar ætlaði að bjóða sig fram til framkvæmdastjórnar. Mér leist mjög vel á það og við ræddum það hvernig best væri að hjálpa honum á Signal,“ segir Hans.

Niðurstaðan úr kjörinu varð hallarbylting í framkvæmdastjórn og við tók hópur sem m.a. tengdist hópspjalli þeirra sex einstaklinga sem stóðu að skipulagi í aðdraganda kjörsins. Halldór Auðar varð formaður framkvæmdastjórnar í fyrstu.  

Niðurstaðan olli deilum innan flokksins og vakti reiði sumra þingmanna Pírata sem sagðir eru hafa sakað Atla Þór um að „smala“ atkvæðum á kostnað sitjandi manna í framkvæmdastjórn sem voru þingmönnum hliðhollir.

Úr varð að Halldór Auðar steig til hliðar úr formannssæti eftir deilurnar og tveir varamenn sem voru í fyrri stjórn fengu atkvæðarétt eftir að reglum flokksins var breytt eftir á. 

Ekkert að gera með að hnýsast í einkaskilaboð

„Þingflokkurinn kemst yfir þetta spjall og ég er mjög ósáttur því þetta er einkasamtal. Þingflokkurinn hefur ekkert með það að gera að hnýsast í mín einkaskilaboð,“ segir Hans. 

Í hans huga eru Persónuverndarlögin skýr og telur hann þingflokkinn fara langt út fyrir sínar heimildir með því að ræða skjáskotin á þingfundi. 

Kortleggja mögulega pólitíska andstæðinga

„Þarna er hópur þingmanna að ræða innanflokkspólitík og það er mjög óeðlilegt að mínu viti. Því þarna er tengslanet að nokkru leyti kortlagt innan flokksins og hverjir eru líklegir til að vera samþenkjandi. Þegar horft er á innanflokkspólitík þá má sjá að það eru miklir hagsmunir manna sem felast í því að komast yfir spjallið og sjá hverjir eru samþenkjandi og hvernig mögulegir pólitískir andstæðingar hafa kortlagt sig,“ segir Hans.

Hann segir marga reiða innan flokksins vegna skjáskotanna.

„Ef það er einhver flokkur sem stendur fyrir persónuvernd, frelsi einstaklings til frjálsra hugsana og að verja lítilmagnann fyrir þeim sem eru stærri þá ætti það að vera Píratar. Orðræðan sem er í gangi hjá kjörnum fulltrúum í þessu máli er á þann veg en þegar kemur að því að gera þetta á borði en ekki í orði þá falla þau heldur betur á prófinu,“ segir Hans.

Hans Benjamínsson.
Hans Benjamínsson. Ljósmynd/Aðsend

Ekki styggðaryrði 

Hann segist ekki sjá fyrir að þetta myndi koma upp í neinum öðrum stjórnmálaflokki. 

„Nú hefur maður mismikið álit á öðrum flokkum í pólitík en ég sé ekki fyrir mér að neinn myndi fara þangað, að taka skjáskot fyrir á þingflokksfundi,“ segir Hans. 

Fyrir utan það að það er ekki talað styggðaryrði um nokkurn mann þarna. Þvert á móti erum við að minna á að hrósa hinum og þessum fyrir það sem vel er gert.

Fékk enga afsökunarbeiðni

Hann segir að upphaflega hafi ekki staðið til að fara lengra með málið.

„Vegna þess hversu útópískt vitlaust þetta er, þá bjóst maður við afsökun frá þingmönnum og að þeir myndu átta sig á því að hafa farið út í móa. En svo sá ég innlegg frá þingmanni inni í lokuðum hópi Pírata sem gerði það að verkum að ég gat ekki setið á mér lengur,“ segir Hans.

Hann segir þingmenn hafa borið það fyrir sig að þeir geti ekki rætt um málið þar sem um starfsmannamál sé að ræða. Hans telur þingmennina misskilja umkvörtunina sem snýr ekki síst að ákvörðuninni um að skoða skjáskot annarra á þingflokksfundi frekar en að þetta snúist eingöngu um innihaldið sem þar kemur fram.

„Fyrir utan það að þingmenn hafa tjáð sig um þetta efnislega að einhverju leyti inni á lokuðu Pírataspjalli í einhverjum hálfkveðnum vísum.“

Niðurstaðan aukaatriði 

Eins og hann skilur lögin þá telur hann borðleggjandi að lög um Persónuvernd hafi verið brotin.

En hann telur það þó jafnvel aukaatriði.

„Þessi aðgerð samræmist hvorki persónuverndarstefnu Pírata né persónuverndarlögum og spurning er hvort að þetta standist fjarskiptalög,“ segir Hans.

En það þarf ekkert að velta því sérstaklega fyrir sér, því eftir stendur að þingflokkur Pírata lætur sér það eftir sér að skoða einkasamskipti annarra félagsmanna. Sama hver niðurstaða Persónuverndar verður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert