Lenya Rún Taha Karim, núverandi varaþingmaður Pírata, hlaut flest atkvæði í prófkjöri Pírata fyrir Reykjavíkurkjördæmin. Prófkjöri flokksins lauk í dag. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, náði 2. sæti í prófkjörinu.
Má því gera ráð fyrir því að Lenya og Björn Leví muni leiða framboðslista Pírata í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.
Lenya hefur verið varaþingmaður Pírata síðustu þrjú ár og var á dögunum kjörin nýr formaður Ungra Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, er í þriðja sæti í prófkjörinu og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, er í því fjórða.
Skákar Lenya þar með þremur sitjandi þingmönnum Pírata.
Í sætum fimm og sex eru borgarfulltrúar flokksins, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Alexandra Briem.