Meirihluti tíma kennara fer í annað en kennslu

Bent er á að 63% tíma grunnskólakennara sé varið í …
Bent er á að 63% tíma grunnskólakennara sé varið í annað en kennslu. Hlutfallið sé hærra en á öllum hinum Norðurlöndunum. mbl.is//Hari

Tíma grunnskólakennara í vinnu er líklega ekki nægilega vel varið hér á landi. Innra starf skóla hefur þróast með þeim hætti að mikill hluti af vinnuframlagi grunnskólakennara fer í að sinna öðrum störfum en kennslu.

Þetta segir í nýrri samantekt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar sem farið er yfir sjónarmið sambandsins í kjaraviðræðum við kennara.

Rímar margt þar við fullyrðingar Einars Þorsteinssonar borgarstjóra, sem hann hlaut bágt fyrir og baðst síðar afsökunar á. Kennarar höfðu þá sumir jafnvel fellt niður störf til að lýsa óánægju sinni.

Þá hefur Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna stigið inn í umræðuna og fullyrt að sótt hafi verið hart að kennurum síðustu mánuði. Ráðist hafi verið á kennarastéttina.

Minni kennsluskylda en í nær öllum samanburðarlöndum

Sambandið bendir á að fjöldi greiddra stunda grunnskólakennara samkvæmt kjarasamningi séu 1.752 klukkustundir á ári.

Það sé sambærilegur fjöldi stunda og hjá dagvinnufólki á vinnumarkaði.

Af heildarvinnuframlagi grunnskólakennara fari þó aðeins 641 klukkustund á ári í kennslu, sem sé talsvert minni kennsluskylda en í nær öllum samanburðarlöndum.

Samanburður á kennsluskyldu eftir löndum.
Samanburður á kennsluskyldu eftir löndum. Graf/Samband íslenskra sveitarfélaga

63% tímans í annað en kennslu

Þannig fari aðeins 37% af vinnutíma kennara hér á landi í kennslu nemenda en hlutfallið sé nær 50% á hinum Norðurlöndunum og meðal OECD-ríkja.

„Þá er 63% af tíma grunnskólakennara hér á landi varið í undirbúning, önnur fagleg störf, endurmenntun, kaffitíma, frímínútur og undirbúningstíma utan starfstíma skóla,“ segir í samantekt sambandsins.

„Samsetning vinnuframlags grunnskólakennara er talsvert ólíkt því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. Staðin kennsla á Íslandi er til að mynda 15-20% minni en á hinum Norðurlöndunum og undirbúningur 10-25% meiri.“

Annað graf fylgir, þar sem Norðurlöndin eru borin saman, en tekið fram að Danmörk sé þar ekki sökum þess að þar sé mikil dreifstýring og samsetning vinnuframlags kennara ekki fyrirfram ákveðin. Að mati OECD sé meðalkennsluskylda þar þó að jafnaði 700 klukkustundir árlega.

Samanburður á vinnsluskyldu eftir Norðurlöndum.
Samanburður á vinnsluskyldu eftir Norðurlöndum. Graf/Samband íslenskra sveitarfélaga

Óvíða jafn fáir nemendur á kennara

Sambandið tekur fram að öflugt menntakerfi sé undirstaða efnahagslegrar hagsældar og félagslegrar velferðar í samfélaginu. Kennarar gegni þar gífurlega mikilvægu hlutverki í menntun barna og að ómæld virðing sé borin fyrir þeirra störfum.

„Kennarar styðja við nemendur, óháð stöðu þeirra, til að þroska hæfileika sína til fulls og undirbúa sig fyrir framtíðina. Það er alveg skýrt að íslensk stjórnvöld (ríki og sveitarfélög) hafa lagt áherslu á menntamál enda eru útgjöld til grunnskóla óvíða meiri í heiminum og sama má segja um útgjöld vegna leikskóla og daggæslu,“ segir í samantektinni.

Bent er á að hér á landi sé hlutfall menntaðra kennara við grunnskólakennslu sambærilegt eða hærra en á hinum Norðurlöndunum.

„Þá eru bekkir að jafnaði smærri en í samanburðarlöndum, óvíða jafn fáir nemendur á kennara, auk þess sem að nýliðun í stéttinni er í góðu samræmi við meðaltal OECD-ríkja. Þannig viljum við hafa þetta.“

Samanburður á launalegum framgangi í starfi kennara.
Samanburður á launalegum framgangi í starfi kennara. Graf/Samband íslenskra sveitarfélaga

Hvergi eins lítil tækifæri til launaþróunar

Sambandið vekur athygli á að kaupmáttarleiðrétt laun grunnskólakennara á Íslandi séu yfir meðaltali OECD-ríkjanna. Hér á landi séu launin jafnframt hærri en í Svíþjóð og Finnlandi en lægri en í Noregi og Danmörku.

Mesta athygli veki þó afar lítil dreifni í launum kennara.

Launahæstu grunnskólakennararnir séu þannig með 8% hærri laun en nemur byrjendalaunum.

„Tækifæri til launaþróunar eru hvergi eins lítil meðal OECD-ríkja. Til að bæta launakjör í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum þurfa grunnskólakennarar hreinlega að færa sig í stjórnunarstöður sem felur gjarnan í sér minni eða enga kennslu.“

Undirbúningstími leikskólakennara talsvert lengri

Þegar kemur að leikskólastiginu segir sambandið að alþjóðlegur samanburður sé flóknari, en það stig er í minna mæli í höndum hins opinbera.

„Það er talsverður breytileiki milli landa í samsetningu vinnuframlags leikskólakennara og oft gerður greinarmunur á leikskólakennslu yngri barna (0-3 ára) og þeirra eldri. Loks virðist vera talsvert meiri dreifstýring í rekstri leikskóla og hæfnisköfur starfsfólks ólíkar,“ segir í samantektinni.

„Eitt er ljóst að undirbúningstími leikskólakennara hér á landi er talsvert lengri en á Norðurlöndunum og er hann til að mynda enginn í miðlægum kjarasamningum leikskólakennara í Danmörku og Svíþjóð.“

Þegar horft sé til alþjóðlegs samanburðar á eldri deildum leikskólastigsins þá virðist sem kaupmáttarleiðrétt meðallaun leikskólakennara séu hærri en víða. Á leikskólum séu fáir nemendur á kennara og stéttin ung.

Sambandið ber saman skólakerfið eftir ólíkum þáttum og bendir á …
Sambandið ber saman skólakerfið eftir ólíkum þáttum og bendir á rými til bætingar. Graf/Samband íslenskra sveitarfélaga

Ætla má að ekki vanti fjármagn í menntakerfið

Þá segir að af alþjóðlegum samanburði megi ætla að það vanti ekki fjármagn í menntakerfið. Það geti þó mátt verja því með markvissari hætti.

„Kennarar þurfa að fá svigrúm og rými til að verja meiri tíma í kennslu því kennarastéttin hefur tilskilda menntun og hæfni til að sinna kennslu nemenda. Ein hugmynd væri að bjóða kennurum upp á val, að þeir sem vilja auka kennslu og hækka laun sín hafi kost á því,“ segir sambandið.

„Augljóst rými er til að auka kennsluskyldu í grunnskólum sem mætti dreifa yfir lengri tíma og forgangsraða kjarnaverkefnum kennara. Hvoru tveggja felur í sér tækifæri til að minnka vinnuálag á kennurum.“

Engin kröfugerð borist

Kjarasamningar Félags grunnskólakennara, Félags leikskólakennara, Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Félags stjórnenda leikskóla og Skólastjórafélags Íslands runnu út 31. maí.

Bendir sambandið á að leiðarstefið í málflutningi þessara stéttarfélaga sé krafa um jöfnun launa milli markaða.

Engin kröfugerð um hvernig ná eigi slíku markmiði hafi borist frá viðræðunefnd Kennarasambands Íslands.

Sambandið segir að af alþjóðlegum samanburði megi ætla að það …
Sambandið segir að af alþjóðlegum samanburði megi ætla að það vanti ekki fjármagn í menntakerfið. mbl.is/Árni Sæberg

Launamunur geti talist málefnalegur

Er meðal annars tekið fram að í ljósi þess að kjaraleg réttindi opinberra starfsmanna séu betri en á almennum vinnumarkaði, s.s. meiri orlofs- og veikindaréttur, framlög í sjóði, lengri uppsagnarfrestur, meira starfsöryggi og styttri vinnutími, þá geti launamunur milli markaða talist málefnalegur.

Þá er bent á að í fyrra hafi náðst áfangasamkomulag við BSRB, BHM og KÍ um skref í átt að jöfnun samhliða undirritun skammtímakjarasamninga.

„Þá náðist fyrr á þessu ári annað áfangasamkomulag við BSRB og BHM sem er frekara skref í átt að jöfnun fyrir þær starfsstéttir þar sem skýrar vísbendingar eru um ómálefnalegan og kerfislægan launamun á milli markaða. Kennarasambandið sagði sig frá viðræðunum í janúar síðastliðnum og er því ekki hluti af seinna áfangasamkomulaginu.“

Gagnlegt að byggja samtalið á staðreyndum

Loks segir sambandið að vilji sveitarfélaga til að eiga samtal og semja við kennara til lengri tíma sé sannarlega fyrir hendi.

„Þá getur verið afar gagnlegt að byggja það samtal á staðreyndum og greiningum. Hafa ber í huga að þær kjarabætur sem samið var um í upphafi árs með stöðugleikasamningum á almennum markaði hafa verið leiðarljós allra undirritaðra samninga opinberra launagreiðenda við stéttarfélög opinberra starfsmanna.“

Kjarasamningsbundnar hækkanir stöðugleikasamninganna hafi verið gerðar með það að markmiði að ná niður verðbólgu hér í landi og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.

„Lífskjaraþróun heimilanna veltur á þróun þessara hagstærða næstu misserin og eru félagsmenn Kennarasambands Íslands þar engin undantekning. Það er til mikils að vinna að auka efnahagslegan stöðugleika á Íslandi og setja ekki þegar gerða kjarasamninga í uppnám.

Eigum samtal um skynsamar leiðir að farsælum langtímakjarasamningum í þágu stöðuleika, starfsánægju kennara, menntunar og farsældar íslenskra barna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka