Neðri óvissumörkum verði náð í byrjun nóvember

Hraunjaðarinn liggur skammt frá Vogum.
Hraunjaðarinn liggur skammt frá Vogum. mbl.is/Árni Sæberg

Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram með svipuðum hraða og síðustu vikur. Þá hefur jarðskjálftavirkni á kvikuganginum aukist lítillega síðustu daga eða um fimm skjálfta að meðaltali á dag. Sá stærsti var 1,5 að stærð.

Er rúmmál kviku nú um 2/3 af því sem safnaðist í kvikuhólfið fyrir síðasta gos sem hófst 22. ágúst. Ef flæði kviku heldur áfram á svipuðum hraða má búast við að neðri óvissumörkum verði náð í byrjun nóvember.

Þessu greinir Veðurstofa Íslands frá í tilkynningu.

Þar segir að lærdómur af fyrri kvikuhlaupum og eldgosum nýtist við að meta hversu mikið magn af kviku þurfi að bætast við undir Svartsengi til að koma af stað næsta atburði.

Það tímabil þar sem auknar líkur eru taldar á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi markast af neðri og efri óvissumörkum.

„Þróunin hefur verið sú að tími milli gosa lengist þar sem magn kviku sem þarf til að koma af stað næsta kvikuhlaupi eða eldgosi virðist aukast með tíma. Mögulega þarf að gera ráð fyrir því að hætta á eldgosi sé talin mikil í nokkrar vikur áður en kvikuhlaup og mögulega eldgos hefst,“ segir í tilkynningunni.

Líkur farnar að aukast

„Ef markverð aukning á skjálftavirkni mælist á svipuðum tíma má gera ráð fyrir því að líkur á nýju kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi séu farnar að aukast. Líkur á því munu aukast smám saman eftir því sem meira magn kviku bætist við og skjálftavirkni eykst,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Þá kemur fram að rúmmál þeirrar kviku sem safnast hefur undir Svartsengi síðan síðasta gosi lauk sé metið um 14 milljónir rúmmetra.

Áætlað er að um 24 milljón rúmmetrar af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu í síðasta eldgosi.

„Í þessum líkanreikningum er óvissan um +/- 5 milljón rúmmetrar. Rúmmál kviku undir Svartsengi verður því komið í sambærilega stöðu og fyrir síðasta gos þegar það nær inn á bilið sem afmarkast af „neðri óvissumörkum“ (19 milljónir rúmmetra) og „efri óvissumörkum“ (29 milljónir rúmmetra).“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert