Nefnir engin dæmi af fjölmörgum þó

Sanna Magdalena Mörtudóttir segir fjölmargar skattkerfisbreytingar hafa verið gerðar á síðustu árum sem nýtist hinum efnameiri. Þrátt fyrir það getur hún engin dæmi nefnt þar um.

Þetta kemur fram í viðtali við hana í Spursmálum en hún er fyrst stjórnmálaleiðtoganna til þess að mæta á þann vettvang og svara fyrir stefnu flokks síns.

Um liðna helgi var henni falið að leiða kosningabaráttu Sósíalistaflokks Íslands og mögulegar stjórnarmyndunarviðræður að kosningum loknum.

Þegar hún var þráspurð út í dæmi um þær skattalækkanir sem hún fullyrti að hefðu átt sér stað, nefndi hún niðurfellingu svokallaðs aðstöðugjalds á fyrirtæki sem hún segir að fellt hafi verið niður hjá sveitarfélögunum árið 1993.

Orðaskiptin um þetta mál má sjá í spilaranum hér að ofan en þau má einnig sjá í textanum sem rakinn er hér að neðan.

Vill að hinir ríku greiði meira

Mig langar líka til að fara ofan í skattamálin. Þið viljið breyta skattkerfinu í grundvallaratriðum. Getur þú útskýrt fyrir mér hvaða skref þið mynduð fyrst taka ef þið kæmust til valda?

„Eins og við sjáum, við búum hérna öll saman í þessu samfélagi og við viljum hafa það þannig að við getum öll haft það gott og við vitum að staðan er ekki þannig í dag. Og þá spyr maður sig, hvernig getur maður búið til einhvern góðan samfélagssáttmála þannig að þau sem hafi meira geti greitt inn í sameiginlega sjóði þannig að það bitni ekki á þeim sem hafa minna. Þá er auðvitað eðlilegt að þau sem eru með mjög miklar tekjur, bara mjög ríkir einstaklingar, það er eðlilegt að þeir greiði til nærsamfélagsins eins og aðrir.“

Þeir borga miklu meiri og hærri skatta í krónum talið heldur en hitt fólkið.

„Þeir greiða ekkert útsvar af fjármagnstekjunum sínum til sveitarfélagsins. Ég vil breyta því og við höfum talað fyrir því að það sé eðlilegt, eins og til dæmis í tilfelli sveitarfélaga að þú greiðir útsvar af þínum fjármagnstekjum og þá þurfa að vera einhver svona viðmið þannig að við erum að tala um að það þurfi að ná til þeirra sem hafa langmestan auðinn og hafa ekki verið að greiða til samfélagsins. Ég meina, það er mjög skrítið...“

Borgi ekki fyrir þjónustuna

Þeir greiða til samfélagsins til ríkissjóðs. Þetta er fólk sem greiðir jafnvel, einstaklingar sem greiða jafnvel milljarða af fjármagnstekjum inn til ríkisins. Er ekki dálítið kaldranalegt að segja að þetta fólk greiði ekki til samfélagsins?

„Það greiðir ekki útsvar, finnst þér það ekki skrítið? Það greiðir ekki fyrir sorpþjónustu, fyrir leikskóla, fyrir grunnskóla, fyrir menningarsöfn, fyrir sundlaugar, þau eru að nýta þessa þjónustu og greiða ekkert fyrir hana.“

Jú, þau, öll fyrirtæki og félög þurfa að greiða reiknað endurgjald. Þú þekkir þær reglur.

„Já en finnst þér eðlilegt að manneskja sem hefur kannski bara fjármagnstekjur, engar launatekjur, segjum það, hefur bara fjármagnstekjur upp á marga milljarða, býr í sveitarfélagi og er ekki að greiða inn til nærsamfélagsins, finnst þér það eðlilegt?“

Ég er ekki að segja það. En það er tvennt sem þú nefnir í þessu, það er annars vega þetta með að breyta þessu með útsvarið, ég held að allir geti tekið undir að það sé sanngjarn, en svo segir þú að þetta fólk sé ekki að greiða sanngjarnan skerf til samfélagsins, en það gerir það auðvitað í formi gjalda til ríkissjóðs.

„En það eru líka lægri skattar á fjármagnstekjur en launatekjur.“

Hver er fjármagnstekjuskatturinn?

Nei það er ekki rétt, hver er munurinn þar?

„Það fer auðvitað eftir því hvað þú ert með. En grunnurinn er sá að launafólk er að bera byrðarnar af því að skattar hafa verið lækkaðir á hátekjufólk og fyrirtæki...“

Fjármagnstekjuskattur hefur verið hækkaður. Hann var 10% fyrir hrun, hann er núna 22%.

„En við sjáum að það er látekjufólk og miðtekjuhópar sem eru að bera...“

Þú segir að skattar hafi verið lækkaðir, þeir hafa ekki verið lækkaðir, þeir hafa verið hækkaðir.

„Við sjáum að skattbyrðinni hefur verið velt yfir á lágtekjuhópa og millitekjuhópa.“

Nei Sanna, þú verður að segja satt, þú verður að fara með staðreyndir hér í þessu máli. Hvernig hafa skattar á þetta ofurríka fólk sem er að níðast á öðru fólki, hvernig hafa þeir verið lækkaðir?

„Á fjölbreyttum sviðum.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir er gestur Spursmála að þessu sinni.
Sanna Magdalena Mörtudóttir er gestur Spursmála að þessu sinni. mbl.is

Aðstöðugjöld afnumin fyrir rúmum 30 árum

Hvernig þá?

„Við vorum með allskonar skatta. Svo ég taki dæmi. Við vorum með aðstöðugjöld og það var lagt af 1993 þar sem talið var eðlilegt að fyrirtæki greiddi fyrir það að fá að hafa starfsemi sína í sveitarfélagi.“

Þú ert að tala um fyrirtæki, þú ert að vísa í einstaklinga, hvernig hafa skattar á þessa einstaklinga verið lækkaðir?

„Við sjáum það bara, þú veist þetta Stefán, þú veist þetta allt saman.“

Nei, segðu, hver eru dæmin. Ef þessir skattar hafa verið lækkaðir, hvernig hefur það verið gert?

„Ég var að nefna dæmi.“

Nei, aðstöðugjald á fyrirtæki 1993 er ekki dæmi þar um.

„Nei, en ég held að það sem fólk vilji heyra núna er hvernig við sjáum...“

Nei, fólk vill heyra ykkur segja satt. Hvernig hafa þessir skattar verið lækkaðir?

„Þeir hafa, ég mæli bara með að fólk...“

Nei þú hlýtur að geta svarað því, leggðu það bara á borðið. Þú segir að skattarnir hafa verið lækkaðir. Hvernig hafa þeir verið lækkaðir?

„Við sjáum bara fjölmörg dæmi í kringum okkur.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir situr fyrir svörum í Spursmálum að þessu …
Sanna Magdalena Mörtudóttir situr fyrir svörum í Spursmálum að þessu sinni. mbl.is

Nefnir aftur gamla dæmið

Já, nefndu þá eitt af þeim, ef þau eru fjölmörg.

„Ég var að nefna til dæmis, ef þú ert með fyrirtæki, segjum að það sé í góðum rekstri, og þú greiðir ekki fyrir þá aðstöðu sem þú hefur í sveitarfélaginu.“

Þú ert að nefna dæmi frá 1993. Hvenær á síðustu árum hafa skattar á þetta fólk verið lækkaðir?

„Við sjáum bara hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hafi lækkað á almenning. Það er bara ekki rétt.“

Ég er að spyrja um lækkanir á þennan hóp. Ertu með einhver dæmi eða ert þetta bara einhver almenn yfirlýsing.

„Við sjáum bara síðustu áratugi hvernig þetta hefur verið fram.“

Viðtalið við Sönnu Maríu má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert