Reykjavíkurborg vöruð við vegna skuldahlutfalls

Einar Þorsteinsson tók við af Degi B. Eggertssyni sem borgarstjóri …
Einar Þorsteinsson tók við af Degi B. Eggertssyni sem borgarstjóri í upphafi árs. Bréf eftirlitsnefndar lýtur að ársreikningi fyrir árið 2023. Samsett mynd

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur sent Reykjavíkurborg bréf þar sem bent er á að borgin uppfylli ekki ákvæði sveitarstjórnarlaga sem munu taka gildi árið 2026 um skuldahlutföll ef miðað er við ársreikning frá árinu 2023.

Gerð er krafa um það í bréfinu að gripið verði til aðgerða strax svo að borgin geti sem fyrst uppfyllt umrædd skilyrði.

DV sagði fyrst frá.

Bréfið var sent þann 1. október. Fram kemur á DV að bréfið hafi ekki enn komið fyrir augu borgarstjórnar heldur hafi það verið sent til umsagnar hjá fjármála- og áhættustýringarsviði.

Snýr að borgarsjóði  

Skuldahlutfall borgarinnar var 158% á síðasta ári en hámarksviðmiðið er 150% samkvæmt reglum sem munu taka gildi 2026. Þegar talað er um skuldahlutfall er átt við heildarskuldir, A- og B-hluta sem hlutfall af reglulegum tekjum. A- hluti er borgarsjóður en B-hluti lýtur að öðrum hlutum í rekstri borgarinnar á borð við fyrirtæki eða félög sem eru sjálfstæðar rekstrareiningar.

Leitað verði leiða 

Í bréfinu kemur einnig fram að borgin uppfyllir svokölluð jafnvægisviðmið sveitarstjórnarlaga sem til stendur að taki gildi árið 2026. Tekur það til samanlagðra útgjalda og tekna úr A- og B- hluta á hverju þriggja ára tímabili. Viðmiðið var jákvætt upp á rúmlega 26 milljarða króna.

Í bréfinu er lögð sérstök áhersla á að leitað verði leiða til að uppfylla lágmarksviðmið fyrir árið 2026.

Einnig er minnst á það að borgarstjórn beri ábyrgð í málinu og leggur eftirlitsnefndin til að bréfið verði lagt fyrir í borgarstjórn til kynningar og þess getið í fundargerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka