Snorri Másson gekk á fund Bjarna Ben

Snorri Másson gekk til fundar við Bjarna Benediktsson í stjórnarráðinu í síðustu viku. Þetta kemur fram í viðtali við Snorra í Spursmálum í dag þar sem hann mætti til leiks ásamt Guðmundi Ara Sigurjónssyni, sem að öllu óbreyttu mun verma annað sæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi kosningar. Snorri sækist eftir leiðtogasætinu hjá Miðflokknum.

Í viðtalinu, sem sjá má að hluta í spilaranum hér að ofan, er Snorri spurður út í það hvenær hann hitti Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra, síðast.

Bjarni Benediktsson settist niður með Snorra Mássyni í liðinni viku.
Bjarni Benediktsson settist niður með Snorra Mássyni í liðinni viku. mbl.is/samsett mynd

Hvenær hittust þeir tveir?

Snorri, hvenær hittir þú Bjarna Benediktsson síðast?

„Ég hitti Bjarna Benediktsson. Hvenær hitti ég hann síðast? Ég hitti hann ekki fyrir svo löngu.“

Fyrir hversu löngu, ég get svarað því ef þú vilt ekki gera það sjálfur?

„Ég myndi segja að ég hafi hitt hann, svo ég svari því bara alveg hreinskilnislega í, ekki í þessari viku heldur síðustu viku.“

Hvar?

„Stjórnarráði Íslands.“

Hvað fór ykkur í milli?

„Okkur á milli? Mín og Bjarna? Bara samtal.“

Um hvað?

„Það er bara trúnaðarsamtal okkar á milli.“

Var þér boðið sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík?

„Ég held að menn séu ekki að bjóða fólki sæti með þeim hætti. Það er hægt að hvetja fólk til þess að bjóða sig fram og annað eins. Það er ekkert verið að gera tilboð, svona pakkadíla.“

Upptaka af þættinum verður aðgengileg á mbl.is og á Spotify innan tíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert