Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir allt hafa gengið vel fyrir sig í gær er opnað var fyrir aðgengi almennings að Grindavíkurbæ á ný. Fáir ferðamenn hafi komið inn í bæinn, samkvæmt hans upplýsingum.
Að sögn lögreglustjórans ætti að vera í lagi að heimsækja bæinn, eins og staðan er í dag. Hann segir lögreglu þó fylgjast vel með stöðunni og vinna eftir upplýsingum Veðurstofu Íslands.
„Menn þurfa að vera undirbúnir fyrir það að það gæti dregið aftur til tíðinda, þá með nýju kvikuhlaupi eða eldgosi. Við þær aðstæður gætum við þurft að takmarka aðgengi að bænum með svipuðum hætti og við höfum gert hingað til,“ segir Úlfar í samtali við Morgunblaðið.
Hann nefnir að þörf sé á viðvörunarskiltum á þeim vegum sem liggja inn í bæinn og gerir hann ráð fyrir að þau skilti verði sett upp í dag eða á næstu dögum.
„Það þarf auðvitað að vara erlenda ferðamenn við því inn á hvaða svæði þeir eru að koma.“
Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins lögðu leið sína til bæjarins í gær og rákust þar á enska nemendur á aldrinum 17-18 ára sem staddir voru í bænum í skólaferðalagi.
Hópnum var ekið um bæinn í rútu. Aðstoðardeildarstjóri skólans var með í för. Að sögn hans urðu nemendur fyrir hálfgerðu áfalli við að sjá byggingarnar og áhrifin sem atburðirnir hafa haft á bæjarlífið.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.