Ber talsvert á milli deiluaðila

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara.
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur Freyr Gíslason, formaður félags leikskólakennara, tók úrskurði Félagsdóms um að verkfallsboðun kennara væri lögmæt með stóískri ró.

„Ég fagna þessari niðurstöðu eins og hægt er að fagna. Það er ekkert skemmtilegt að standa í þessu en við unnum og þau töpuðu. Við höfðum rétt fyrir okkur en þau rangt fyrir sér en svo er það bara áfram gakk,“ sagði Haraldur við mbl.is.

Funduðu í dag

Boðuð hafa verið ótímabundin verkföll í Leikskóla Seltjarnarness, Drafnarsteini í Reykjavík, Holti í Reykjanesbæ og Ársölum á Sauðárkróki frá 29. október. 

Haldur er í viðræðunefnd Kennarasambandsins sem mætti í húsakynni ríkissáttasemjara klukkan 13 í dag þar sem viðræður í kjaradeilu við Samband íslenskra sveitarfélaga hafa farið fram.

Jafna laun á milli markaða

„Við þurfum að fara í það verkefni að jafna laun á milli markaða og það er það sem skiptir máli í þessu. Það er augljóst að það ber talsvert á milli deiluaðila,“ segir Haraldur.

Hann segir að þótt skammur tími sé til stefnu áður en verkföll skelli á þá geti deiluaðilar náð saman ef vilji sé fyrir hendi hjá báðum aðilum.

Spurður hvort hljóð sé þungt í leikskólakennurum varðandi kaup og kjör segir Haraldur:

„Já, annars værum við ekki stödd á þessum stað. Við erum búin að vera í þessu verkefni að jafna laun á milli markaða í átta ár og það er komið að því að við þurfum að klára þetta mál í kjarasamningum. Það er ljóst,“ segir Haraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert