Býst við „stórtíðindum“ úr héraðsdómi á næstunni

„Þannig að innan þriggja vikna er búist við stórtíðindum,“ segir …
„Þannig að innan þriggja vikna er búist við stórtíðindum,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búist er við því að dómur falli innan þriggja vikna í máli er varðar hópmálsókn Neytendasamtakanna gegn viðskiptabönkunum. Niðurstöður málsins verða „stórtíðindi“ á Íslandi og í Noregi sama hvernig málið fer, að sögn formanns Neytendasamtakanna.

Neytendasamtökin skipulögðu hóp­mál­sókn árið 2021 gegn Landsbankanum, Íslandsbanka og Ari­on banka. Málið er tekið fyr­ir í Héraðsdóm­i Reykja­vík­ur og Héraðsdómi Reykja­ness. Nú taka um 2.500 manns í málsókninni.

Máli gegn Landsbankanum var vísað til EFTA-dómstólsins árið 2022, en EFTA eru Fríverslunar­sam­tök Evr­ópu.

Komst dóm­stóll­inn að þeirri niður­stöðu að skil­mál­ar lána með breyti­leg­um vöxt­um á Íslandi væru óskýr­ir – hinn al­menni lán­tak­andi skildi ekki þá útreikninga sem vext­irn­ir byggðu á.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Innan þriggja vikna er búist við stórtíðindum“

„Aðalmeðferð fór fram í Héraðsdómi Reykjaness á þriðjudaginn [í síðustu viku] og að venju eru dómarnir gefnir út innan fjögurra vikna. Þannig að við bíðum spennt,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sem hafa skipulagt rúm­lega 2.500 manna hóp­mál­sókn gegn Íslandsbanka og Ari­on banka sem tekin er fyr­ir í Héraðsdóm­i Reykja­vík­ur og Héraðsdómi Reykja­ness.

„Þannig að innan þriggja vikna er búist við stórtíðindum.“

Niðurstaðan í mál­inu mun aðallega hafa þýðingu fyr­ir þá sem tekið hafa fast­eignalán eft­ir að lög um fast­eignalán til neyt­enda gengu í gildi þann 1. apríl 2017, að sögn Neytendasamtakanna en úr­sk­urður­inn hef­ur einnig for­dæm­is­gildi yfir lán­um líf­eyr­is­sjóða.

Norðmenn bíða spenntir

„Hvernig sem hann fer þá verða það stórtíðindi,“ segir hann en hann býst við því að tilvonandi dómi verði áfrýjað. Breki bindur vonir við að hægt verði að áfrýja málinu beint til Hæstaréttar.

Það eru ekki aðeins Íslendingar sem bíða ýmist með hnút eða fiðrildi í maganum eftir því að dómur falli í málinu, heldur getur dómurinn einnig haft áhrif í öðrum EFTA-löndum, þar á meðal Noregi.

„Ég veit að Norðmenn bíða mjög spenntir,“ segir Breki, sem átti fund með norsku neytendasamtökunum í september.

Sam­tök norskra fjár­mála­fyr­ir­tækja, Fin­ans Nor­ge, bentu á að í kjöl­far dóms EFTA-dómstólsins væri nauðsyn­legt að skoða og breyta vaxta­skil­mál­um hús­næðislána í Nor­egi án taf­ar.

„Þar er verið að undirbúa svipaðar málsóknir fari dómar hér á Íslandi eins og EFTA-dómstóllinn hefur kveðið. Og ég veit að Svíar og Danir eru líka að fara í svipað mál.“

Bakaði ríkið sér skaðabótaskyldu?

Formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is sagði við mbl.is í maí að íslenska ríkið gæti mögu­lega orðið skaðabóta­skylt ef mun­ur reyn­ist vera milli nú­gild­andi laga og þeirra Evróputil­skip­ana sem EFTA bend­ir á í tengsl­um við vaxta­málið svo­kallaða.

Eftir álitið birtist brást Lands­bank­inn við með yfirlýsingu þar sem sagði að vaxta­breyt­inga­ákvæði sín stæðu enn ís­lensk lög þrátt fyr­ir að dóm­stóll EFTA kvæði þau ógagn­sæ. Það væri ís­lenskra dómstóla að dæma um gildi vaxta­breyt­inga­ákvæða í fast­eignalán­um hér á landi, ekki EFTA-dóm­stóls­ins.

Samtök íslenskra fjármálafyrirtækja bentu einnig á að það væri hlut­verk ís­lenskra dóm­stóla að dæma um gildi ákvæða í skil­mál­unum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka